Alls 58 manns leituðu frá því klukkan 20 í fyrrakvöld til jafnlengdar í gær á bráðamóttöku Landspítalans vegna hálkuslysa.
Hálka lá víða yfir götum og gangstéttum á höfuðborgarsvæðinu sem varð til þess að fólk datt; sumir fótbrotnuðu, aðrir báru fyrir sig höndina í fallinu og brotnuðu og einnig var nokkuð um að fólk dytti og fengi höfuðhögg, þung sem létt. Engin þessara óhappa teljast þó alvarleg, segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga, í Morgunblaðinnu í dag.
„Hingað á bráðamóttökuna komu margir í morgunsárið; fólk sem datt í hálkunni á leiðinni í vinnu eða skóla. Þetta var mjög annasamur dagur. Sem betur fer leituðu margir þó til heilsugæslunnar með meiðsli sín sem kom í veg fyrir að álagið hér yrði mjög mikið. Við þurftum til dæmis ekki að kalla til viðbótarmannskap eins og stundum gefur gerst á hálkudögum, sem við þekkjum svo vel hér á bæ,“ segir Jón Magnús.