Í aldarfjórðung hefur Páll Winkel unnið við löggæslu og kann hann því vel. Sem forstjóri Fangelsismálastofnunar hefur hann látið til sín taka og breytt mörgu til batnaðar. Hann segir innilokun í lokuðu fangelsi ekki bæta nokkurn mann og þótt Páll telji vont fólk vera til segir hann flest fólk gott. Eitt stærsta verkefnið er glíman við eiturlyfin, en um 70- 90% fanga eru í neyslu.
Páll býður til sætis og nær í úrvalskaffi. Hann er reffilegur í eldrauðri skyrtu og brosir breitt þannig að skín í skemmtilegt frekjuskarðið. Eftir skraf um dásamlegt útsýnið og daginn og veginn vindum við okkur í spjall um fangelsismál, sem eru í stöðugri þróun. Vandamálin eru mörg hjá þeim hópi fólks sem sviptur er frelsinu um stund; fólks sem Páll segir flest í grunninn gott.
Páll segist hafa verið ákveðinn frá upphafi í að breyta ýmsu þegar hann tók við sem forstjóri Fangelsismálastofnunar.
„Ég áttaði mig á því mjög fljótlega að það þyrfti að breyta um stefnu. Innilokun í lokuðu fangelsi bætir ekki nokkurn mann. Að loka manneskju inni í lokuðu fangelsi allan afplánunartímann er slæm hugmynd og ekki líkleg til að betra einstaklinginn. Við fórum því markvisst í það að breyta fangelsiskerfinu þannig að nú er ákveðinn tröppugangur í kerfinu. Sá sem kemur inn til að afplána fer fyrst í lokað fangelsi og ef allt gengur vel fer hann þaðan í opið fangelsi. Ef allt gengur vel þar fer hann á áfangaheimili og lýkur afplánun heima hjá sér með ökklaband og er þá undir rafrænu eftirliti. Þetta hefur verið markviss vinna löggjafans, Fangelsismálastofnunar og Dómsmálaráðuneytisins síðustu árin. Það hafði sýnt sig að það var ekki góð aðferð að loka mann inni á Litla Hrauni og afhenda honum svo strætómiða í bæinn út í frelsið,“ segir Páll.
Stundum heyrir maður fólk tala um að það sé lúxus að vera á Kvíabryggju; menn geti hangið í golfi og haft það gott. Hvað segir þú við því?
„Já, ég heyri svona tal og fæ stundum yfir mig hressilegar gusur þegar ég sit í heita pottinum. En það sem þetta snýst um er að svipta fólk frelsi sínu. Það er ekki okkar hlutverk að gera frelsissviptinguna verri en nauðsynlegt er og það er okkar verkefni að framkvæma hana þannig að einstaklingurinn geti átt von þegar hann kemur úr afplánun. Ég get sagt fyrir mína parta að ef ég væri lokaður inni í svítunni á Hótel Hilton í fimm ár, þá myndi mér ekki líða vel. Þeir sem eru á Kvíabryggju mega ekki fara þaðan og ef þeir gera það er litið á það sem strok úr afplánun, það er lýst eftir þeim og þeir svo sendir í einangrun á Litla-Hraun,“ segir Páll.
Talið víkur að einu stærsta vandamáli fangelsanna; eiturlyfjunum. „Ég áætla að um 70-90% fanga glími við eiturlyfjafíknina. Í opnu fangelsunum eru menn komnir lengra í bata, en í lokuðu fangelsunum eru 90% fanga í virkri fíkn. Við erum að glíma við harðari og harðari efni og það er alveg dagljóst að það þarf að skipta um aðferð í þeirri baráttu,“ segir Páll.
Nýtt eiturlyf, Spice, tröllríður nú fangelsunum, enda er afar erfitt að finna það á gestum eða í vörum sem koma inn í fangelsin.
„Við höfum oft verið gagnrýnd fyrir það að fíkniefni komist inn í fangelsi. Það er nú þannig að fangar eiga rétt á að fá heimsóknir frá ættingjum og vinum. Svo þarf að senda mat og vörur inn í fangelsin. Við erum með fíkniefnahund og mjög öflugt starfsfólk sem leitar á öllum og í þessu öllu saman, en þegar komið er efni sem er lyktarlaust, og þar sem eitt gramm verður að hundrað skömmtum, þá geturðu ímyndað þér hvað það er erfitt að koma í veg fyrir svona sendingar. Við vitum hvaða fangar eru að dreifa fíkniefnum innan fangelsanna en efnin koma hins vegar ekki inn með heimsóknargestum þeirra. Þvert á móti eru það heimsóknargestir lágtsettra fanga sem eru þvingaðir til að koma með efni inn í fangelsin.“
Ertu að segja að „háttsettir“ fangar láti gesti „lágtsettra“ fanga koma inn með efnin með hótunum?
„Já, þannig gengur þetta fyrir sig.“
Páll segir óhugnanlegt að horfa á fanga sem neytt hafi Spice. Þeir verði algjörlega út úr heiminum í um það bil fimmtán mínútur og að því loknu taki við skelfilegur niðurtúr. Svo slæmur að það eina sem komist að sé næsti skammtur. Að lokinni vímunni muni menn ekkert eftir henni né hvað þeir gerðu á meðan. Kemur fyrir að hópur fanga sé í vímu á sama tíma, sem gerir starf fangavarða afar erfitt og krefjandi.
Páll segir þau þurfa að gera betur með því að draga úr eftirspurninni.
„Við drögum úr framboðinu með því að leita og vera vakandi. En á meðan það er vilji, þá komast menn í fíkniefni. Því þurfum við að bjóða betri og meiri meðferð fyrir þá einstaklinga sem eru á þessari braut,“ segir hann og segir að í dag sé vissulega einhver meðferð í boði en betur má ef duga skal.
Ertu hræddur við þessa menn?
„Nei. Ég er ekki hræddur við þessa menn en ég geri mér grein fyrir því að þeir geta verið óútreiknanlegir við vissar aðstæður og fer því varlega. Lögreglan er mjög öflug í þessu landi og sterk og hún sér um mig og mína þegar á þarf að halda,“ segir hann.
Nú hefur þú þroskast í starfi með árunum og séð ýmislegt. Er til vont fólk?
„Já. Það er til vont fólk. Það hefur fólk farið hér í gegnum kerfið sem ég hef trú á að verði brotamenn alla tíð. En það eru algjörar undantekningar. Ég hef trú á að flestir geti betrast, og fái þeir hlýju og væntumþykju og finni að öllum sé ekki sama um þá, þá geti þeir komist á fætur. Það er virkilega skemmtilegt að rekast á einstaklinga sem voru lengi inni í fangelsi og ítrekað, sem eru svo allt í einu bara í röðinni með þér á Serrano; eru að koma úr vinnunni og í fínum gír.“
Heilsa þeir þér?
„Já, já! Ég fæ líka bréf annað slagið frá gömlum skjólstæðingum sem segja mér að þeir séu á lífi og allt gangi vel og það er skemmtilegt.“
Viðtalið í heild er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.