„Þarna eru aðallega þrír hellar sem við getum farið í. Þeir eru stutt frá lendingarstað. Fallegur blámi er í stærsta hellinum en við fengum ótrúlega fallega upplifun þegar við fórum þangað í vikunni, fallega sólarupprás og skrautsýningu inni í hellinum,“ segir Einar Rúnar Sigurðsson fjallaleiðsögumaður, sem fundið hefur þrjá fallega íshella í Skeiðarárjökli.
Atlantsflug skipuleggur þyrluflug þangað í samvinnu við fyrirtæki Einars og fleiri ferðaþjónustufyrirtæki. Myndir Ragnars Axelssonar eru úr einni ferðinni.
Einar Rúnar er brautryðjandi í leiðsögn ferðafólks í íshella hér á landi. Frá því að hann hóf þetta starf fyrir tæpum áratug og byrjaði að setja myndir úr íshelli inn á heimasíðu sína hefur þessi starfsemi aukist stórlega. Myndir úr íshellum fara eins og eldur í sinu um internetið og efla áhugann.
Nú bjóða fjölmörg fyrirtæki upp á þessa þjónustu og þúsundir erlendra ferðamanna heimsækja þá íshella sem aðgengilegir eru hverju sinni. Áhuginn beinist að því að taka mynd og setja á samfélagsmiðla. Þannig eru flestir erlendir ferðamenn sem heimsækja Suðausturland að vetri með heimsókn í íshelli á dagskrá sinni.
Hin hliðin á þessum aukna áhuga er að það er orðin örtröð við þá fáu íshella sem eru aðgengilegir.
Einar Rúnar og félagar hans fundu í fyrravetur nýja íshella í Skeiðarárjökli, framan við Færnes í Skaftafellsfjöllum. Hann fór þangað í haust til að kanna stöðuna enda vatnakerfið alltaf að breytast. Íshellarnir eru 13-15 kílómetra frá Skaftafelli og erfitt að nálgast þá gangandi.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu 29. nóvember.