Hugmyndir breska kaupsýslumannsins Edis Truells um lagningu sæstrengs fyrir raforku á milli Íslands og Bretlands virðast eiga á brattann að sækja hjá breskum ráðamönnum samkvæmt frétt breska dagblaðsins Times. Segir í fyrirsögn fréttarinnar að draumar Truells séu fyrir vikið að verða rafmagnslausir.
Fram kemur í fréttinni að Andrea Leadsom, viðskiptaráðherra Bretlands, og Kwasi Kwarteng orkumálaráðherra hafi samkvæmt heimildum blaðsins hafnað hugmyndinni. Ríkisstjórnarskipti voru í Bretlandi í sumar þegar Boris Johnson varð forsætisráðherra og tóku þau Leadsom og Kwarteng þá við embættum sínum.
Breskir fjölmiðlar greindu í kjölfarið frá því að Truell vonaðist til þess að fá betri undirtektir hjá nýju ráðherrunum en forverum þeirra sem hefðu tekið fálega í hugmynd hans. Samkvæmt frétt Times hefur Truell ítrekað reynt að fá bresk stjórnvöld til þess að ábyrgjast ákveðið lágmarksverð fyrir raforkuna frá Íslandi til 35 ára.
Haft var eftir Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph sumarið 2018 að þó enn væru margar hindranir sem komast þyrfti yfir, þar á meðal varðandi umhverfis- og skipulagsmál, á þeirri leið að hægt yrði að samþykkja lagningu sæstrengs myndi það auðvelda mat á fýsileika þess ef bresk stjórnvöld gætu gefið skýr svör um fast orkuverð fyrir líftíma slíks strengs.
Fram kemur í frétt Times að Truell, sem hefur að sögn blaðsins styrkt breska Íhaldsflokkinn, flokk Johnsons forsætisráðherra, um háar fjárhæðir, hafi hótað því að fara með málið fyrir dómstóla. Hins vegar hafi hann í fyrradag sagt að hann hefði „öðrum hnöppum að hneppa í lífinu“.
Enn fremur segir í fréttinni að Truell hafi hótað því að hætta við að reisa verksmiðju í norðausturhluta Englands, þar sem framleiða á kapalvíra og tengist sæstrengsverkefninu, fái hann ekki stuðning frá stjórnvöldum.
Haft er eftir heimildarmanni í viðskiptaráðuneytinu í frétt dagblaðsins að ekki hafi borist nein formleg tillaga eða umsókn vegna verkefnisins og fyrir vikið geti ráðuneytið ekki tekið formlega afstöðu til þess.