Frestur til að sækja um stöðu útvarpsstjóra var framlengdur um viku vegna þess að „einhverjum“ þótti umsóknarfresturinn of stuttur en hann átti að renna út í dag. Þetta kemur fram í svari Kára Jónassonar, stjórnarformanns RÚV.
Staðan var auglýst 15. nóvember og segir Kári í samtali við mbl.is að talað hafi verið um að hafa frestinn þrjár vikur. Hann hafi hins vegar ekki verið nema rétt rúmar tvær vikur. Einhverjir hafi þess vegna haft samband við ráðningafyrirtækið Capacent, sem sjái um ráðningaferlið, og sagt að fresturinn væri stuttur.
Tillit hafi verið tekið til þessa og því hafi fresturinn verið framlengdur um viku.
Kári segir að framlengdur fresturinn tengist ekki gagnrýni á það að stjórn RÚV muni ekki birta nöfn umsækjenda eftir ráðleggingu frá Capacent.
„Þetta er ekkert í sambandi við það og snýst bara um tímann,“ segir Kári.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði á þingi fyrr í dag að hún hefði sent stjórn RÚV bréf þar sem svara var krafist af hverju ekki verði birtur listi yfir þá sem sækja um stöðuna.
„Við erum ekki búin að svara ráðherra en bréfið var sent rétt fyrir helgi. Stjórnin á eftir að fjalla um bréfið,“ segir Kári og heldur áfram:
„Málið er hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál og við bíðum eftir því að fá eitthvað frá þeim.“
Kári segist ekki hafa upplýsingar um það hversu margir hafi sótt um stöðuna.