Meirihluti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn á Seltjarnarnesi lýsir yfir „fullu trausti“ í garð skólastjórnenda og kennara við Grunnskóla Seltjarnarness og um leið ánægju með gott starf í skólanum til fjölda ára. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem meirihlutinn hefur sent til fjölmiðla.
„Við vitum að mikill metnaður er innan Grunnskóla Seltjarnarness um gott skólastarf og mikilvægt er að sátt og traust ríki um allt sem viðkemur skólamálum á Nesinu,“ segir í yfirlýsingu meirihlutans, sem segist harma þá stöðu sem upp er komin og segir að fundað verði um málið með kennurum skólans „hið fyrsta“ til þess að ræða stöðuna.
Kennarar og stjórnendur Grunnskóla Seltjarnarness kenndu ekki 7. — 10. bekk í Valhúsaskóla í dag, þar sem þeir telja meirihluta bæjarstjórnar og fulltrúa Viðreisnar/Neslistans hafa vegið gróflega að heilindum sínum, fagmennsku og starfsheiðri með orðum sem látin voru falla á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku. Kennararnir treystu sér ekki til þess að taka á móti nemendum af þessum sökum.
„Meirihluti bæjarstjórnar lýsir fullu trausti við skólastjórnendur og kennara við Grunnskóla Seltjarnarness og um leið ánægju með gott starf í skólanum til fjölda ára.
Við vitum að mikill metnaður er innan Grunnskóla Seltjarnarness um gott skólastarf og mikilvægt er að sátt og traust ríki um allt sem viðkemur skólamálum á Nesinu.
Meirihlutinn harmar þá stöðu sem upp er komin, og fundað verður um málið hið fyrsta.
Boðað verður til fundar með kennurum skólans til að ræða þá stöðu sem upp er komin.
Meirihluti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn.“