„Við hörmum það að skólahald hafi ekki verið með eðlilegum hætti í dag. Okkur finnst nemendur skólans vera fórnarlömb í þessari togstreitu,“ segir Kristinn Ingvarsson, varaformaður foreldrafélags Valhúsaskóla.
Allt skólastarf féll niður í skólanum í dag þar sem kennarar og stjórnendur skólans sögðust ekki treysta sér til að sinna kennslu vegna þeirrar óánægju sem ríkir með framgöngu bæjarfulltrúa og þeirra orða sem þeir hafa látið falla opinberlega um námsmat skólans.
Upphaf málsins má rekja til þess að í vor kvörtuðu foreldrar undan lokamati fyrir 10. bekkinga og voru ósáttir við viðbrögð skólans. Erindið var lagt fyrir skólanefnd í sumar og ákveðið var að fá utanaðkomandi skólastjóra til að taka saman greinargerð um námsmat í skólanum. Í stuttu máli var niðurstaðan sú að ýmislegt þyrfti að bæta, bæði í námsmati og upplýsingagjöf, en vinnan við nýtt námsmat var komin vel á veg.
Á bæjarstjórnarfundi á miðvikudaginn í síðustu viku harmaði meirihluti bæjarstjórnar ágreining sem kom upp um námsmat í skólanum. Í bókun meirihlutans eru nemendur og foreldrar beðnir afsökunar „á því tilfinningalega tjóni og óþægindum sem það kann að hafa valdið, og afleiðingum sem þetta hafði í för með sér“ að því er segir í bókuninni.
Bæjarfulltrúi Viðreisnar/Neslista sagði úttektina vera falleinkunn fyrir skólann og að í henni blasti við að alvarleg brotalöm hefði verið á útskrift nemenda í vor og jafnvel lengra aftur í tímann. Með þessum orðum fannst kennurum kjörnir fulltrúar vega freklega að sér og treystu sér því ekki til kennslu í dag.
Fulltrúar í foreldrafélagi Valhúsaskóla komu saman á fundi í kvöld og ræddu stöðuna. Kristinn segir það óboðlegt að ágreiningurinn sem upp er kominn bitni á nemendum sem stunda í nám í skólanum nú.
Í kjölfar fundarins í kvöld mun félagið senda póst á foreldra allra barna í skólanum um atburðarásina í dag og aðdraganda hennar. „Okkur hefur þótt vanta upp á að fólk sé inni í því sem búið er að gerast,“ segir Kristinn.
Foreldrafélagið hefur ekki fengið frekari útskýringar frá skólastjórnendum vegna málsins en hefur verið í sambandi við fræðslustjóra Seltjarnarnesbæjar.
„Okkur finnst að þeir sem koma að þessu öllu saman hafi ekki verið til fyrirmyndar og okkur finnst það skipta máli að við séum góðar fyrirmyndir fyrir börnin okkar,“ segir Kristinn og á jafnt við skólastjórnendur, kennara og bæjarfulltrúa sem hlut eiga að málinu.
Kennsla verður samkvæmt stundaskrá í skólanum á morgun og segir Kristinn það vísbendingu um að hægt verði að leysa úr þeim ágreiningi sem upp er kominn án þess að það bitni á nemendum. Meirihluti bæjarstjórnar hefur jafnframt óskað eftir fundi með skólastjórnendum.
„Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs með skólanum. Menntun þessara krakka er samábyrgð okkar allra og þetta á ekki að bitna á þeim,“ segir Kristinn.