Ekki er lengur kveðið á um skyldu Ríkisútvarpsins til þess að birta nöfn, heimilisföng og starfsheiti þeirra sem sækja um auglýst störf í persónuverndaryfirlýsingu RÚV. Breytingin var gerð í dag en áður var tekið þar fram að skyldan væri til komin vegna upplýsingalaga sem gilda um stofnunina.
Vísir vekur athygli á þessu en persónuverndaryfirlýsing RÚV hefur verið til umfjöllunar eftir að stjórn stofnunarinnar ákvað að birta ekki lista yfir umsækjendur um stöðu útvarpsstjóra. Umsóknarfrestur um starfið átti að renna út í dag en síðdegis barst tilkynning þess efnis að fresturinn hafi verið framlengdur um viku.
Kári Jónasson, stjórnarformaður RÚV, sagði í samtali við mbl.is í kvöld að framlengdur frestur hafi ekkert með nafnbirtingu að gera.
Í uppfærðri útgáfu persónuverndaryfirlýsingarinnar segir að RÚV kunni að „áskilja sér rétt í tengslum við ráðningar í ákveðnar stjórnunarstöður að birta lista yfir umsækjendur“. Hvergi er minnst á upplýsingalög í uppfærðri útgáfu yfirlýsingarinnar.