Breytingar á skipulagi lögreglu kynntar í dag?

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur boðað til blaðamannafundar í Ráðherrabústaðnum …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur boðað til blaðamannafundar í Ráðherrabústaðnum kl. 13 til að fjalla um málefni lögreglu. mbl.is/Hari

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur boðað til blaðamannafundar í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu, en þar ætlar ráðherra að fjalla um málefni lögreglu, samkvæmt því sem fram kemur í fundarboði frá ráðuneytinu.

Að undanförnu hefur verið unnið að breytingum á skipulagi löggæslumála innan dómsmálaráðuneytisins og sagði Áslaug Arna í samtali við mbl.is fyrir um það bil mánuði síðan að það kæmi til greina að sameina embætti ríkislögreglustjóra og lögregluembætti höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja, auk þess sem stofnun sérstakrar landamæradeildar lögreglu hefur verið í umræðunni, án þess að nokkrar ákvarðanir hafi verið kynntar.

Mögulega mun dómsmálaráðherra kynna slíkar breytingar á skipulagi löggæslumála á blaðamannafundinum í dag, en fram kom í síðustu skýrslu GRECO, ríkjahóps gegn spillingu innan Evrópuráðsins, að rétt væri að taka skipulag lögreglunnar á Íslandi til endurskoðunar.

Mikil ólga var innan lögreglunnar í haust, ekki síst vegna viðtals við Harald Johannessen ríkislögreglustjóra sem birtist á síðum Morgunblaðsins, sem kom í framhaldi af gagnrýni lögregluembætta á rekstur bílamiðstöðvar ríkislögreglustjóra.

Í kjölfarið lýstu átta af níu lögreglustjórum landsins yfir vantrausti á ríkislögreglustjóra og togstreitan á æðstu stöðum innan lögreglunnar var ljóslega mikil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka