Kostnaður við veitingar á síðasta fundi bæjarstjórnar Ölfuss var um 214 krónur á hvern fundarmann. Þessu greinir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, frá á Facebook-síðu sinni í dag vegna frétta af því að fundir borgarstjórnar Reykjavíkur á tólf mánaða tímabili hafi kostað að meðaltali 850 þúsund krónur. Þar af kostuðu veitingar um 360 þúsund krónur. Elliði tekur fram að nokkur afgangur hafi orðið af veitingunum í Ölfusi.
Þannig hafi verið boðið upp á eðalbrauð og salat frá Café Sól. „Brauðið kostaði um 500 krónur og dósin af salati kostaði um 450 krónur. Þar sem fundur var frekar langur var boðið upp á tvær tegundir af salati. Með þessu var drukkið kaffi og vatn. Um var að ræða eina uppáhellu,“ segir Elliði enn fremur. Kaffikostnaðurinn hafi þannig líklega verið um 100 krónur og heildarkostnaðurinn vegna fundarins um 1.500 krónur.
Fundinn hafi sjö bæjarfulltrúar setið og tveir starfsmenn. Veitingakostnaðurinn hafi því verið um 214 krónur á hvern fundarmann. Elliði tekur þó fram þann fyrirvara að tölurnar séu eftir minni en láti mjög nærri. Reykjavíkurborg segir um 40 manns koma að fundum borgarstjórnar sem þýðir að kostnaður á mann hefur verið um 9 þúsund krónur að meðaltali. Kostnaðurinn var þannig 42 sinnum meiri en í Ölfusi.