Nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands skilaði Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, í dag skýrslu sinni um þjóðgarð á miðhálendinu. Í nefndinni sátu fulltrúar allra þingflokka á Alþingi, Sambands íslenskra sveitarfélaga, umhverfis- og auðlindaráðuneytis og forsætisráðuneytis.
Í skýrslunni er lagt til að Hálendisþjóðgarður verði á landsvæði sem er í sameign þjóðarinnar, það er þjóðlendum og friðlýstum svæðum sem eru innan miðhálendisins. Gert er ráð fyrir að umhverfis- og auðlindaráðherra leggi fram frumvarp um stofnun Hálendisþjóðgarðs á Alþingi næsta vor sem byggi á áherslum nefndarinnar, að því er ráðuneytið greinir frá.
Nefndin leggur til að víðtækt samráð verði haft um stjórnun þjóðgarðsins þar sem sveitarfélög og helstu hagaðilar hafi beina aðkomu. Stjórnunin verði dreifð og aðkoma sveitarfélaga og hagaðila aukin frá því sem þekkst hefur í stjórnsýslu friðlýstra svæða til þessa. Þá leggur nefndin meðal annars til að Hálendisþjóðgarði verði skipt í nokkur rekstrarsvæði þar sem starfrækt verði svæðisbundin ráð sem fari með svæðisbundna stefnumörkun, umsjón og rekstur. Einnig leggur nefndin áherslu á að Hálendisþjóðgarður efli og styðji við sjálfbæra nýtingu hálendisins um leið og hann grundvallist á sáttmála um að standa vörð um þær merku minjar í náttúrufari og menningu sem einkenna hálendi Íslands, segir í tilkynningunni.
Nefndin hóf störf vorið 2018 og grundvallast starf hennar á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að komið skuli á fót þjóðgarði á miðhálendi Íslands og það verði gert í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar.
Í skýrslu sinni undirstrikar nefndin nauðsyn þess að við undirbúning lagafrumvarps verði fjármagnsþörf þjóðgarðsins greind ítarlega, bæði hvað varðar stofnun hans og rekstur. Þá telur nefndin brýnt að stjórnkerfi Hálendisþjóðgarðs geti unnið við þær stefnumarkandi áætlanir sem nauðsynlegar eru áður en rekstur þjóðgarðsins hefst.