Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir stofnun lögregluráðs jákvætt skref í löggæslumálum hér á landi og tekur undir með Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra að ráðið muni tryggja að lögreglan myndi eina samhenta heild og minnka þá togstreitu sem hefur verið innan lögreglunnar.
Áslaug Arna kynnti nýtt lögregluráð á blaðamannafundi í dag. Í því munu allir lögreglustjórar landsins sitja, auk ríkislögreglustjóra, sem verður formaður ráðsins.
„Þetta er mjög góð hugmynd og okkur líst mjög vel á þetta hjá LRH,“ segir Sigríður Björk í samtali við mbl.is.
Haraldur Johannessen lætur af störfum sem ríkislögreglustjóri eftir rúm 20 ár í embætti, eða frá því embætti ríkislögreglustjóra var stofnað. „Ég held að Haraldur hafi lyft grettistaki í löggæslu í landinu og hann hefur eflt hana og byggt hana upp og gert frábæra hluti með ríkislögreglustjóraembættið. En svo er það bara þannig að samfélagið er að þróast mjög hratt og við þurfum öll að mæta því,“ segir Sigríður Björk um starfslok ríkislögreglustjóra. Sigríður Björk er meðal átta lögreglustjóra sem lýstu yfir vantrausti á Harald í haust.
Haraldur mun verða dómsmálaráðherra til ráðgjafar varðandi málefni lögreglunnar í þrjá mánuði. Að því loknu tekur starfslokasamningur við og felur hann í sér að ráðherra geti leitað sér ráðgjafar hans á fimmtán mánaða tímabili. Að því loknu fer ríkislögreglustjóri á biðlaun.
Sigríður Björk segist ekki þekkja starfslokasamninginn en hún telur eðlilegt að reynslan sé nýtt áfram innan kerfisins. „Það er mikilvægt að það sé samfella í lögreglunni og hvernig hún þróast.“
Kjartan Þorkelsson hefur verið skipaður ríkislögreglustjóri tímabundið en staðan verður líklega auglýst strax næstu helgi. Aðspurð hvort hún hafi leitt hugann að því að sækja um stöðu ríkislögreglustjóra skellir Sigríður Björk upp úr og segir ekki tímabært að hugleiða það, en hún ítrekar að hún sé mjög ánægð í starfi sínu sem lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Hugmyndir voru uppi um að sameina þrjú lögregluembætti; lögreglustjórann á Suðurnesjum, lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóra. Dómsmálaráðherra sagði á blaðamannafundi fyrr í dag að þær breytingar væru enn til skoðunar.
Sigríður Björk telur að áður en sameining embætta verði rædd frekar sé rétt að endurmeta hlutverk ríkislögreglustjóra. „Ég held að það sé fyrsta skrefið að vega og meta hvernig hlutverkin eiga að vera þarna og það er kannski það sem lögreglustjórarnir hafa verið að kvarta yfir, þeir vilja komast að þessu borði og móta þjónustuna betur gagnvart almenningi. Við erum með fólkið í höndunum.“
Lögregluráð kemur að öllum líkindum fyrst saman fljótlega eftir áramót en Sigríður Björk segir að hún eigi eftir að fá frekari upplýsingar um starfsemi ráðsins. „Þetta hljómar mjög vel og við teljum að samstarf sé lykilhugtak inn í framtíðina og þar þurfi að mætast bæði reynsla og nýjar hugmyndir.“