Kjartan verður ríkislögreglustjóri tímabundið

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á blaðamannafundinum í dag.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kjartan Þorkelsson, lögreglustjóri á Suðurlandi, verður skipaður ríkislögreglustjóri til bráðabirgða er Haraldur Johannessen hættir störfum um áramót. Frá þessu greindi Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á blaðamannafundi.

Kjartan Þorkelsson (t.v.) hefur verið skipaður ríkislögreglustjóri til bráðabirgða. Hann …
Kjartan Þorkelsson (t.v.) hefur verið skipaður ríkislögreglustjóri til bráðabirgða. Hann hefur tjáð ráðherra að hann ætli ekki að sækjast eftir starfinu til frambúðar er það verður auglýst. mbl.is/Ómar Óskarsson

Greint var frá því skömmu fyrir hádegi að Haraldur Johannessen myndi hætta störfum um áramót. Áslaug Arna sagði starfslok hans vera í góðri sátt, en bæði hún og hann hefðu komist að þeirri niðurstöðu að kominn væri tími til þess fá nýjan mann í embættið. Staðan verður auglýst fljótlega og sagðist Áslaug vonast til þess að fá öflugar umsóknir, en þar til yrði embættið í öruggum höndum Kjartans, sem hefur þegar tjáð ráðherra að hann hyggist ekki sækjast eftir starfinu til frambúðar.

Áslaug Arna kynnti engar sameiningar á lögregluembættum á fundinum, en kynnti aukið samráð á milli lögregluembætta landsins og ríkislögreglustjóra. Sérstakt lögregluráð tekur til starfa í upphafi nýs árs og mun það funda mánaðarlega. Í því munu allir lögreglustjórar landsins sitja, auk ríkislögreglustjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka