Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra kynnti nýtt lögregluráð á blaðamannafundi í dag. Í því munu allir lögreglustjórar landsins sitja, auk ríkislögreglustjóra, sem verður formaður ráðsins. Áslaug Arna segir í samtali við mbl.is að hugmyndin hafi komið að utan, sér í lagi frá hinum Norðurlöndunum.
Hún segir markmiðið að efla samráð og tryggja hæfni lögreglunnar til að takast sameiginlega á við þær áskoranir sem uppi eru hverju sinni – tryggja það að lögreglan í landinu myndi eina samhenta heild. Telur Áslaug að stofnun lögregluráðsins verði til þess að minnka þá togstreitu sem hefur verið innan lögreglunnar.
Áslaug segir að á vettvangi lögregluráðsins, sem er formlegur samráðsvettvangur, verði allar stærstu ákvarðanir sem þarf að taka ræddar, en einnig geti ráðið átt samráð um útboðsmál, færslu verkefna og fleira. „Ég get líka sem ráðherra leitað til ráðsins og látið þau fjalla um einstök mál,“ sagði ráðherra við blaðamann eftir blaðamannafundinn í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í dag.
Á fundinum kom fram að Kjartan Þorkelsson yrði skipaður ríkislögreglustjóri tímabundið, en Haraldur Johannessen hættir störfum um áramót. Staðan verður vonandi auglýst strax næstu helgi, segir Áslaug.
Í máli Áslaugar á blaðamannafundinum kom fram að ætlunin væri að ríkislögreglustjóri myndi bera allar stærri ákvarðanir undir lögregluráðið. „Ég mun mælast til þess að ríkislögreglustjóri geri það með þessum hætti, en auðvitað fer hann í umboði ráðherra með málefni lögreglunnar áfram. Það er óbreytt,“ segir Áslaug. Það er því ekki þannig að umboð ráðherra til þess að fara með málefni lögreglunnar færist til nýja lögregluráðsins.
Lögregluráðið verður ekki nánar formfest í skipuriti lögreglunnar til að byrja með, en Áslaug Arna segir „mögulegt“ að hún muni kynna lagabreytingar í þá áttina á næsta ári.
Áslaug segir að ýmsar hugmyndir hafi verið uppi um hvað mætti gera til þess að leysa úr vanda lögreglunnar, sem blés út á haustmánuðum og var mikið til umræðu í fjölmiðlum, þar sem skot gengu á milli fráfarandi ríkislögreglustjóra og flestra starfandi lögreglustjóra í umdæmunum níu, hringinn um landið. Lögregluráðið er ætluð lausn á þessum vanda og Áslaug segist binda miklar vonir við að fyrirkomulagið reynist vel.
„Þessi hugmynd lagðist bæði vel í fólk og ég taldi að hún væri skilvirk og hægt væri að koma henni fljótt á og miðað við þau samtöl sem ég hef átt við hlutaðeigandi aðila bind ég miklar vonir við það,“ segir Áslaug Arna.
Að undanförnu hefur verið unnið að breytingum á skipulagi löggæslumála innan dómsmálaráðuneytisins. Áslaug Arna sagði í samtali við mbl.is fyrir um það bil mánuði að það kæmi til greina að sameina embætti ríkislögreglustjóra og lögregluembætti höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja.
Fleiri slíkar breytingar hafa verið í umræðunni og til skoðunar hjá ráðuneytinu. Ekkert slíkt var þó kynnt í dag og sagði Áslaug Arna að það væri ekki tímabært.
„Það er ekki forgangsatriði að sameina embætti til þess að sameina embætti. Ef það er til hagsbóta fyrir lögreglu með einhverjum hætti, að auka skilvirkni, nýta fjármagn betur eða annað slíkt, þá mun ég líta til þess og mun vinna að því ásamt nýjum ríkislögreglustjóra og nýju lögregluráði,“ segir Áslaug Arna, en á blaðamannafundinum kynnti hún þó að skoðað verði að minnka tvíverknað innan lögreglunnar, meðal annars hjá samkynja deildum innan embættis ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Áslaug segir að lagt verði fyrir nýtt lögregluráð að skoða þessi mál í upphafi nýs árs. „Við ætlum að greina verkefni ríkislögreglustjóraembættisins með nánari hætti og hvað sé mögulegt kannski að færa yfir á önnur lögregluumdæmi. Það munum við skoða í samráði við lögregluráðið,“ segir Áslaug.
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri sagði starfsmönnum embættisins frá því í morgun að hann væri að hætta og greindi þeim einnig frá því að ráðherra hefði óskað eftir því að hann yrði til ráðgjafar varðandi málefni lögreglunnar.
Áslaug segir að frá áramótum komi Haraldur inn í dómsmálaráðuneytið í „sérstök verkefni“ í þrjá mánuði. Að því loknu tekur starfslokasamningur við og segir Áslaug þann samning fela í sér að ráðherra geti leitað sér ráðgjafar hans á fimmtán mánaða tímabili. Að því loknu fari ríkislögreglustjóri á biðlaun.