Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir mikilvægt að verja þolendur heimilisofbeldis betur en nú er gert.
„Skaðinn sem ofbeldið veldur er ekki bara alvarlegur heldur ferðast hann með fólki á milli kynslóða,“ sagði hún á Alþingi undir dagskrárliðnum störf þingsins.
Hún sagði löggjafann þurfa að bæta kerfið þannig að þolendur séu varðir betur en núna er og vísaði í þingsályktunartillögu þess efnis.
Í henni felst að Alþingi feli dómsmálaráðherra að setja fram starfshóp sem leggur fram tillögur um bætt verklag og rýmri lagaheimildir.
Ráðherra kynni niðurstöðurnar í síðasta lagi í júní 2020. Þingsályktunartillagan hefur ekki komist á dagskrá en þær umsagnir sem hafa borist um hana hafa verið jákvæðar, að sögn Silju Daggar.