Rúmlega þriðjungur íslenskra drengja nær ekki grunnhæfniviðmiðum lesskilnings samkvæmt niðurstöðu PISA-könnunarinnar árið 2018. Samantekið er frammistaða í lesskilningi á Íslandi mun lakari en á öðrum Norðurlöndum og áfram nokkuð undir meðaltalinu í löndum OECD.
Samtals voru 18,7% prósent stúlkna og 34,4% drengja undir hæfniþrepi 2 í PISA 2018 og teljast því ekki búa yfir grunnhæfni í lesskilningi. Hlutfall drengja hefur hækkað marktækt um fimm prósentustig frá því í síðustu könnun árið 2015 og samtals um rúmlega tíu prósentustig frá 2009 þegar lesskilningur var síðast aðalsvið. Hlutfall stúlkna undir hæfniþrepi 2 hefur hækkað minna en hlutfall drengja frá því í síðustu könnun, eða um þrjú prósentustig, en hækkunin frá því 2009 er svipuð og hjá drengjum eða tæp níu prósentustig.
Ef langtímaþróun er skoðuð má sjá að árið 2009 þegar lesskilningur var síðast aðalsvið PISA var frammistaða á Norðurlöndunum, að Finnlandi undanskildu, nokkuð svipuð. Í kjölfarið hrakaði frammistöðu nokkuð bæði í Svíþjóð og Íslandi, en ólíkt Íslandi hefur Svíþjóð bætt sig töluvert síðan.
Niðurstöður nýrrar PISA-könnunar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) liggja nú fyrir. Könnunin var lögð fyrir 15 ára nemendur á Íslandi vorið 2018. PISA er alþjóðlegt könnunarpróf, sem framkvæmt er á þriggja ára fresti í 79 löndum. Kannaður er lesskilningur og læsi í stærðfræði og náttúruvísindum en ein greinanna er áherslugrein í hvert sinn. Að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á lesskilning.
Meðal helstu niðurstaðna um Ísland í PISA 2018 er, samkvæmt fréttatilkynningu frá Menntamálastofnun:
PISA-könnunin var lögð fyrir í 79 ríkjum árið 2018 og hérlendis tóku 87% allra 15 ára nemenda þátt.
Lesskilningsverkefni PISA eru flokkuð í ólík hæfniþrep eftir því hversu mikið þau reyna á margvíslega þætti lesskilnings. Þessi hæfniþrep er líka hægt að nota til að flokka nemendur eftir frammistöðu og veita þannig upplýsingar um það hversu hátt hlutfall nemenda á Íslandi og í öðrum löndum býr yfir ákveðnum hæfniviðmiðum í lesskilningi.
Grunnhæfni miðar PISA við hæfniþrep 2 og teljast því nemendur á lægri hæfniþrepum ekki búa yfir grunnhæfni í lesskilningi. Nemendur sem falla á hæfniþrep 5 eða hærra (skora 625 stig eða hærra) teljast afburðagóðir í lesskilningi.
Í PISA 2018 voru 26,4% nemenda á Íslandi, eða rétt rúmlega fjórði hver nemandi, undir hæfniþrepi 2, og telst því ekki búa yfir grunnhæfni í lesskilningi. Hlutfallið er 9,5 prósentustigum hærra en það var síðast þegar lesskilningur var aðalsvið í PISA árið 2009, sem er marktækur munur. Hækkunin nemur fjórum prósentustigum síðan í síðustu könnun sem er einnig marktækt. Hlutfall afburðanemenda í lesskilningi, eða þeirra sem eru yfir þrepi 4 (7,1%), er 1,5 prósentustigi lægra en 2009 en er nánast óbreytt frá því í síðustu könnun.
Staða nemenda sem eru innflytjendur er sérstaklega skoðuð í PISA og segir í skýrslu Menntamálastofnunar að ljóst sé að hnignun frammistöðu í lesskilningi í heild á Íslandi á þessu tímabili er ekki afleiðing fjölgunar innflytjenda meðal þátttakenda í PISA.
Samkvæmt skilgreiningu OECD eru innflytjendur í PISA þeir nemendur sem eiga foreldra sem báðir eru fæddir utan landsins sem prófað er í. Þeir eru flokkaðir í annarrar kynslóðar innflytjendur en það eru þeir sem fæddust í landinu sem prófað er í (og eiga foreldra sem báðir fæddust erlendis) og fyrstu kynslóðar innflytjendur, sem eru þeir sem fæddust erlendis (og eiga foreldra sem báðir fæddust erlendis).
Munur á frammistöðu innflytjenda og annarra þátttakanda í lesskilningi í PISA 2018 er töluverður og liggur á bilinu 69-79 stig (74 stig fyrir innflytjendur í heild). Svipaður munur, eða 68 stig, er á milli þeirra nemenda sem tala aðallega íslensku heima hjá sér og þeirra sem tala aðallega annað mál.
Jákvæð þróun hefur átt sér stað meðal þátttakenda af fyrstu kynslóð innflytjenda síðan í síðustu könnun því sá hópur skorar 31 stigi hærra 2018, sem er marktækur munur. Stigafjöldinn er þó ekki marktækt frábrugðinn stigafjöldanum 2009 þegar lesskilningur var síðast aðalsvið. Rúmlega helmingur, eða 51,2% innflytjenda í heild, er undir hæfniþrepi 2 og telst því ekki búa yfir lágmarkshæfni í lesskilningi. Hlutfallið er rúmlega tvöfalt hærra en hlutfall nemenda sem hafa engan erlendan bakgrunn (23,9%). Hlutfallið hefur lækkað um fimm prósentustig síðan í síðustu könnun PISA en breytingin er ekki marktæk.
Líkt og í fyrri könnunum PISA er talsverður munur á frammistöðu í lesskilningi í PISA 2018 eftir landshlutum og nemendur í Reykjavík og nágrenni standa sterkast að vígi. Munur á frammistöðu á höfuðborgarsvæðinu (2036 nemendur, 485 stig) og frammistöðu í öðrum landshlutum (1260 nemendur, 455 stig) er 30 PISA stig.
Ef frammistaða í PISA 2018 er borin saman við PISA 2009, þegar lesskilningur var síðast aðalsvið, má sjá að henni hefur hrakað marktækt í öllum landshlutum. Hins vegar hefur ekki orðið marktæk breyting á frammistöðu frá í PISA 2015 í flestum landshlutum.
Nemendur á Suðurnesjum, Vesturlandi og Norðurlandi eystra standa sig þó marktækt verr í lesskilningi í PISA 2018 en í PISA 2015.
Í skýrslu Menntamálastofunar kemur fram að frammistaða íslenskra unglinga á PISA-prófinu er misjöfn eftir landshlutum.
„Athygli vekur að í Reykjavík hefur meðalframmistaða hækkað örlítið. Samt sem áður, og þrátt fyrir mikla áherslu á grundvallarfærniþætti læsis, hefur hlutfall þeirra sem ná aðeins 1. hæfniþrepi hækkað um eitt prósentustig frá árinu 2015. Aftur á móti hefur hlutfallið á tveim efstu hæfniþrepunum hækkað um þrjú prósentustig, ólíkt því sem gerðist á landsvísu.
Þrátt fyrir ítarleg viðmið og tillögur að kennsluháttum fyrir hvern aldurshóp í Eyjafjarðarsveit og á Húsavík, samkvæmt stefnunni Læsi er lykillinn, hefur frammistaða unglinga á Norðurlandi eystra í lesskilningshluta PISA lækkað frá árinu 2009 þegar lesskilningur var síðast í forgrunni. Hlutfall nemenda á lægstu stigum hefur hækkað en lækkað á þeim efstu.
Í skólum á Austurlandi er meðalstigafjöldi áranna 2015 og 2018 aftur á móti nokkurn veginn sá sami. Grunnskólar Fjarðabyggðar (Fjarðabyggð, e.d.) eru með sömu læsisstefnu og Eyjafjarðarsveit. Grunnskóli Borgarfjarðar eystra (2014) og Grunnskóli Hornafjarðar (2018) eru hvor um sig með sérstaka og ítarlega stefnu um markvissar aðgerðir sem samræmast markmiðum Hvítbókarinnar. Grunnskólinn á Egilsstöðum hefur einnig sérstaka læsisstefnu (Harpa S. Höskuldsdóttir, Ruth Magnúsdóttir, Sigurbjörg Hvönn Kristjánsdóttir og Dagbjört Kristinsdóttir, 2018) og styðst m.a. við Byrjendalæsi og Orð af orði.
Við sjáum að Reykjavík hefur náð betri árangri en önnur sveitarfélög en erfitt er að fullyrða hver ástæðan er. Af þessum dæmum má þó álykta sem svo að opinber læsisstefna og viðmið skýri ekki árangur nemenda í lesskilningshluta PISA árið 2018, heldur sé hér um mun flóknara samhengi að ræða,“ segir í skýrslunni.
Sérstaklega er fjallað um Svíþjóð í skýrslunni. „Svíar byrjuðu þátttöku sína í PISA vel árið 2000 með 516 stig, aðeins ofan við Íslendinga. Frammistaða þeirra dalaði næstu árin og árið 2012 var stigafjöldinn kominn í 483 stig, sem er sami stigafjöldi og íslenskir nemendur hlutu þá.
Þá var ráðist í aðgerðir til að efla skólastarf og menntun kennara. Árangurinn varð sá að á næsta PISA-prófi 2015 snerist þróunin við og Svíar hafa hækkað jafnt og þétt síðan.
Hvað hafa Svíar gert til að ná þessum árangri? Svíar hafa lagt megináherslu á að skýr námskrá og öflug innleiðing hennar sé lykilatriði til að auka gæði í skólastarfi (Taguma, Litjens og Makowiecki, 2013).
Námskrá skilgreinir skýra framvindu og árangur í námi en nær ekki aðeins til einstakra námsgreina heldur leggur áherslu á skipulag skólastarfs í heild með hagsmuni allra barna að leiðarljósi. Tryggja þarf að kennarar þekki námskrána og hafi faglegan og fjárhagslegan stuðning til að fylgja henni eftir í skólastarfinu.
Mikilvægt er einnig að foreldrar þekki námskrána, því það hvetur þá til að búa barninu gott námsumhverfi heima og getur greitt fyrir samstarfi heimila og skóla.
Það sem líklega hefur skipt mestu um betri árangur í lesskilningi á PISA var að Svíar réðust í markvissa símenntun kennara til að bæta árangur í læsi (språk-, läs- och skrivutveckling) með verkefninu Läslyftet.
Verkefnið fór af stað veturinn 2014 til 2015 og náði til allra námstiga skólakerfisins, frá leikskóla til framhaldsskóla og lagt var til grundvallar að bætt læsi barna væri ekki einkamál sænskukennarans, heldur sameiginlegt verkefni allra kennara og því lögð áhersla á að ná til kennara í öllum námsgreinum (Skolverket, 2016, e.d.),“ segir í skýrslu Menntamálastofnunar.