Niðurstöður úr PISA 2018 sýna að íslenskir nemendur standa sig enn undir væntingum í lesskilningi og læsi á náttúruvísindi en bæta sig hins vegar í læsi á stærðfræði. Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, segir að aðeins sex lönd innan OECD séu með færri stig en Ísland þegar kemur að lesskilningi.
Arnór segir nauðsynlegt að efla menntarannsóknir á Íslandi og undir það tekur Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Í þessari PISA-könnun var lögð mikil áhersla á lesskilning sem er mikilvægt fyrir Ísland, að sögn Arnórs en mikið hefur verið unnið að því að efla læsi hér á landi.
Í samanburði við önnur lönd á Norðurlöndunum er lesskilningur íslenskra unglinga mun minni en hinna. Norskir drengir hafa líkt og íslenskir dregist aftur úr og veldur það áhyggjum meðal stjórnmálamanna og skólafólks þar í landi. Samt sem áður er staða norskra ungmenna mun betri en íslenskra. Ísland er töluvert fyrir neðan hin ríkin en Svíar fara töluvert upp á milli ára.
Í PISA 2018 voru 26,4% nemenda á Íslandi, eða rétt rúmlega fjórði hver nemandi, undir hæfniþrepi 2, og telst því ekki búa yfir grunnhæfni í lesskilningi. Hlutfallið er 9,5 prósentustigum hærra en það var síðast þegar lesskilningur var aðalsvið í PISA árið 2009, sem er marktækur munur. Hækkunin nemur fjórum prósentustigum síðan í síðustu könnun sem er einnig marktækt. Hlutfall afburðanemenda í lesskilningi, eða þeirra sem eru yfir þrepi 4 (7,1%), er 1,5 prósentustigum lægra en 2009 en er nánast óbreytt frá því í síðustu könnun.
Arnór segir að Ísland hafi verið á svipuðu róli og hin ríkin árið 2009 fyrir utan Finnland sem hefur alltaf verið ofar en hin norrænu ríkin. Eistland og Kanada eru á toppnum og Finnland er í þriðja sæti listans. Svíþjóð er í sjöunda sæti, Danmörk í því 13. og Noregur er í 14. sæti. Ísland er í 28 sæti af 36 löndum.
Stúlkur stóðu sig töluvert betur en drengir í lesskilningshluta PISA 2018 á Íslandi. Þetta er óbreytt staða frá fyrri könnunum því kynjamunur í lesskilningi á Íslandi (og að meðaltali í löndum OECD) hefur verið stúlkum í hag síðan í fyrstu könnun PISA. Samtals voru 18,7% prósent stúlkna og 34,4% drengja undir hæfniþrepi 2 í PISA 2018 og teljast því ekki búa yfir grunnhæfni í lesskilningi.
Eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna er að allir nemendur nái grunnþekkingu, þa er komist í þrep 2. Við erum því miður frekar að fjarlægjast það markmið segir Arnór og bendir á að þarna sé miðað við að nemendur geti lesið einfaldan texta. Þeir sem eru í þrepi 5 og 6 eru þeir nemendur sem geta ráðið við flókna texta, borið saman og dregið ályktanir. Að meta sannleiksgildi ofl, að því er fram kom í máli Arnórs á blaðamannafundi í morgun. Aðeins 15 íslenskra nemenda er í þrepi sex og 6% í þrepi 5.
Þarna erum við að tala um lágmarksfærni í að lesa upplýsingar og halda áfram námi. Að taka þátt í lýðræðissamfélagi, segir Arnór varðandi þrep 2. 26% íslenskra ungmenna ná ekki því markmiði. Þeim hefur fjölgað um 4% frá árinu 2015 segir Arnór. „Þetta er mjög alvarlegt mál og aukningin frá 2009 er 11%.“
Arnór segir í samtali við mbl.is hafa áhyggjur af stöðu nemenda á landsbyggðinni. Árangurinn er bestur í Reykjavík og nágrenni en slakastur Suðurnesjum, Vesturlandi og Norðurlandi eystra.
Lilja segist sannfærð um að með samstilltum aðgerðum muni takast að bæta stöðuna. Hún segir að þjóðir sem hafa náð bestum árangri, svo sem Eistland og Svíþjóð, hugsi þetta þannig að allir geti lært og að allir skipti máli. Ef við náum utan um það þá lyftist þetta allt upp. Það er rosalega mikilvægt að við höfum þá hugsun,“ segir Lilja.
Hún segir mikilvægt að hafa í huga að öflugt menntakerfi er forsenda framfara. Þannig að þær niðurstöður sem birtast hér tökum við mjög alvarlega og þess vegna með þessar aðgerðir,“ segir Lilja og að hún sé í mjög góðu samstarfi við hagsmunaaðila. „Þetta er samfélagslegt verkefni sem við þurfum öll að taka þátt í. Farsæld þjóðarinnar til framtíðar grundvallast á gæðum menntunnar í dag,“ segir Lilja.
Að sögn Lilju skiptir góður námsorðaforði og hugtakaskilningur höfuðmáli. Þær þjóðir sem ná utan um PISA-verkefnið hafa þetta, það er góðan orðaforða og hugtakaskilning. Það er mikilvægt að leggja áherslu á það og ef það er til staðar eru nemendur komnir með ályktunarhæfni og færni í rökhugsun. Það þarf að vera ánægja af lestri, að sögn Lilju og fjölbreytt lesefni. Eins skipti kennsluaðferðir máli.
Hún segir að orðaforði og hugtakaskilningur í íslensku skýri þá stöðu sem Ísland er í. Eitt af því sem Lilja talaði um á fundi með blaðamönnum er svokölluð 98% regla. Það er að nemendur þurfa að þekkja 98% þeirra orða sem eru í textum námsgagna til þess að geta skilið og tileinkað sér þá án aðstoðar. Ef nemendur fara niður fyrir 95% þurfi flestir nemendur að fá aðstoð.
Í Svíþjóð eru 35% fleiri kennslustundir í móðurmáli á miðstigi en á Íslandi. Annað sem Lilja nefnir er hvernig er farið með tíma annarra. Hún tók sem dæmi hversu erfitt það er fyrir kennara á Íslandi að fá hljóð í kennslustundum og hversu mikið er um að nemendur trufli kennslu. Hún segir að þetta megi allir taka til sín, foreldrar sem aðrir. Að ræða við börn sín og brýna fyrir þeim að nýta tíma sinn vel.
Líkt og fram kom fyrr í dag verður kennslustundum í íslensku fjölgað og segir Lilja í samtali við mbl.is vera mjög ákveðin í því. Því bæta þurfi námsorðaforða á íslensku. „Við verðum að gefa okkur tíma til að fara meira á dýptina því um leið og við gerum það verður hliðrun upp á við. Við höfum ekki meiri tíma til að hefjast handa,“ segir hún og lögð verður áhersla á að efla íslensku í öllum námsgreinum. Ekki bara að fjölga íslenskutímum heldur að bæta íslenskan námsorðaforða þeirra í öllum greinum. Að þau hafi breiða þekkingu á íslenskri tungu. Þetta er yfirleitt gert með því að auka móðurmálskennslu á yngri stigum og í sérgreinum á unglingastigi eins og Eistar gera hvað varðar náttúruvísindi.
Ljóst sé að fækka þurfi kennslustundum á móti en þetta verður unnið í samráði og samvinnu allra hagsmunaaðila. „Við vitum hvar vandinn liggur og erum að ráðast á hann.“
Menntamálaráðherra segir að ýmislegt hafi þegar verið gert frá því PISA var lagt fyrir tíundu bekkinga árið 2018. Hún nefnir þar starfsþróun kennara sem verði lykillinn að því að við náum árangri og okkur gangi vel. Verið er að vinna úttekt á innleiðingu og eftirfylgni aðalnámskrár. Námsmatið þurfi að vera skýrara. Ríkið og sveitarfélög þurfi að koma með meiri stuðning inn í kerfið og vera skýr með það sem skiptir máli. Börnum líði vel í íslenskum skólum en vellíðan og árangur þurfi að fara saman.