Stúlkur standa framar drengjum í öllum þeim námsgreinum sem prófað er úr í PISA-könnuninni. Ísland hefur þar nokkra sérstöðu þegar kemur að stærðfræði en stúlkur stóðu sig marktækt betur en strákar hér á landi. Ísland er neðst Norðurlandanna í öllum greinunum þremur.
Könnunin var lögð fyrir 15 ára nemendur á Íslandi vorið 2018. PISA er alþjóðlegt könnunarpróf, sem framkvæmt er á þriggja ára fresti í 79 löndum. Kannaður er lesskilningur og læsi á stærðfræði og náttúruvísindi en ein greinanna er áherslugrein í hvert sinn. Að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á lesskilning.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að ráðist verði í aðgerðir sem byggi á reynslu annarra, svo sem Svía og Eista. Það sé hins vegar ekki nóg því allt samfélagið verði að taka þátt í að bæta stöðuna. „Við þurfum að tileinka okkur og bæta kennsluaðferðir. Efla þurfi starfsþróun kennara og skólastjórnenda, bjóða upp á sérsniðin námskeið og miðla árangursríkum aðferðum.
Kennararáð er nýjung og tekur mið af nýjum lögum. Það verður eitt af aðaláhersluatriðum menntayfirvalda hér á landi. Ef byggt er upp starfssvið kennara og byggt á menntarannsóknum til að bæta skólastarf er hægt að ná árangri. Að stórauka allt samstarf allra hagsmunaaðila. Að það sé sameiginlegt markmið allra að íslenskt menntakerfi sé í fremstu röð,“ segir Lilja.
„Í stærðfræði og náttúruvísindum verður að fjölga kennurum með sérhæfingu á þessum sviðum. Þetta verður gert með menntavísindasviði Háskóla Íslands, kennaraforystunni, í gegnum starfsþróun. Ísland er eins og lifandi tilraunamiðstöð fyrir náttúruvísindi og auðvitað getum við þetta. Endurskoða námsefni og kennsluleiðbeiningar líkt og Svíar gerðu. Þeir þurftu að setja fjármuni í þetta og það mun ég tryggja,“ segir Lilja og hún segist þar vera með fullan stuðning annarra ráðherra í ríkisstjórninni. Jafnframt verður fagráðum komið á laggirnar líkt og í lesskilningi.
„Kennarar bera þetta allt uppi og starfsumhverfi þeirra þarf að vera gott til að þeir geti tekist á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir,“ segir Lilja.
Íslenskir nemendur hlutu 495 stig í læsi á stærðfræði sem er rétt yfir meðaltalinu í löndum OECD og er frammistaða íslenskra nemenda marktækt betri í PISA 2018 en í síðustu könnun en svipuð frammistöðunni 2012. Að sögn Arnórs Guðmundssonar, forstjóra Menntamálastofnunar, er Ísland eitt sex landa sem hækkar í stærðfræði nú.
Ef litið er lengra til baka má þó sjá að frammistaða nemenda í stærðfræðilæsi dalar á heildina litið og munur á frammistöðu nemenda 2018 og þegar stærðfræði var fyrst aðalsvið árið 2003 er 20 stig, eða 4,7 stiga hnignun að meðaltali milli kannana, sem er marktækt.
Í næstu könnun PISA árið 2021 verður stærðfræðilæsi aftur aðalsvið og niðurstöður úr þeirri könnun munu gefa áreiðanlega mynd af þróun á læsi nemenda á stærðfræði, að því er fram kemur í skýrslu Menntamálastofnunar.
Ísland var lægst Norðurlanda í PISA 2018 í stigum talið en stig Íslands voru ekki marktækt frábrugðin stigum Noregs. Danmörk, Svíþjóð og Noregur bæta sig öll síðan stærðfræði var síðast aðalsvið PISA (2012), frammistöðu í Finnlandi og á Íslandi hrakar á sama tímabili en aðeins Ísland bætir sig marktækt miðað við 2015. Arnór segir að athyglisvert sé að sjá að Danir eru komnir upp fyrir Finna þegar kemur að þessum þætti PISA.
Í PISA 2018 voru 20,7% nemenda á Íslandi, eða fimmti hver nemandi, undir hæfniþrepi 2 og telst því ekki búa yfir grunnhæfni í stærðfræði. Þetta er svipað hlutfall og þegar stærðfræðilæsi var síðast aðalsvið (21,5%) en hlutfallið var lægra 2003 (15%). Jákvæð þróun hefur átt sér stað síðan í síðustu könnun því hlutfallið hefur lækkað um 2,9 prósentustig, sem er marktækur munur.
Hlutfall afburðanemenda í læsi á stærðfræði í PISA 2018 var 10,4% og er svipað og það var 2012 (11,7%) og 2015 (10,3%). Hlutfall afburðanemenda var hins vegar nokkru hærra þegar stærðfræðilæsi var fyrst aðalsvið (15,5%).
Hlutfall nemenda á Íslandi undir hæfniþrepi 2 í stærðfræði í PISA 2018 er lægra en meðaltalið í löndum OECD. Með öðrum orðum búa hlutfallslega fleiri nemendur yfir grunnhæfni í læsi á stærðfræði á Íslandi en að meðaltali í löndum OECD.
Frammistaða íslenskra stúlkna í læsi á stærðfræði í PISA 2018 er marktækt betri en í síðustu könnun PISA og munurinn er tæplega 12 stig. Drengir bættu sig um tæplega 3 stig en sá munur er ekki marktækur. Íslenskar stúlkur eru yfir meðaltali OECD og bætt frammistaða þeirra í PISA 2018 er viðsnúningur frá þróuninni allt frá 2003. Frammistaða íslenskra drengja 2018 er hins vegar svipuð meðaltali OECD og hefur lítið breyst frá 2012. Ef kynin eru borin saman kemur í ljós að stúlkur á Íslandi stóðu sig marktækt betur en drengir í PISA 2018.
Samkvæmt skilgreiningu OECD er læsi á stærðfræði í PISA skilgreint sem geta einstaklings til að setja fram, beita og túlka stærðfræði í margs konar samhengi. Í því felst að geta beitt stærðfræðilegri röksemdafærslu, að geta notað stærðfræðileg hugtök, aðferðir, staðreyndir og hjálpartæki til að lýsa, skýra og spá fyrir um fyrirbæri.
Stærðfræðilæsi nýtist einstaklingi við að skilja hlutverk stærðfræðinnar í umhverfinu og er hluti þeirrar dómgreindar sem þarf til að taka ígrundaðar ákvarðanir sem ábyrgur og upplýstur þjóðfélagsþegn.
Þannig felst mat PISA á læsi í stærðfræði í fleiru en að krefja nemendur um að sýna fram á skilning á stærðfræðilegum hugtökum eða aðferðum sem þeir læra í skólanum. Áherslan er fremur á það að meta hversu góðir nemendur eru í að yfirfæra hæfni sína og skilning yfir á ný verkefni og nýjar aðstæður.
Verkefnin í stærðfræðilæsi eru þannig flest sett fram í samhengi sem á sér hliðstæðu í daglegu lífi og þar sem úrlausnarefnið kallar á stærðfræðilega nálgun. Á sama hátt er stefnt að því að aðstæður nemenda í prófinu séu í takt við aðstæður daglegs lífs og þeir fá því að nota tæki á borð við reiknivél, reglustiku eða töflureikni til þess að leysa verkefnin.
Samhengi verkefnanna spannar breitt svið. Í sumum verkefnum eru úrlausnarefnin sett fram innan kunnuglegs samhengis, t.d. eldamennsku, íþróttaiðkunar eða vörukaupa, en í öðrum er samhengið stærra og flóknara og getur t.d. tengst atvinnustarfsemi eða félags- og náttúruvísindum.
Dr. Freyja Hreinsdóttir, dósent í stærðfræði og stærðfræðimenntun við menntavísindasvið Háskóla Íslands, fjallar um árangur Íslands og nokkrar hugsanlegar ástæður fyrir versnandi gengi frá árinu 2003 í skýrslu Menntamálastofnunar.
„Árið 2018 fengu íslenskir unglingar 495 stig í stærðfræðilæsi, árið 2015 488 stig og árið 2012 493 stig. Þótt það sé vissulega gleðiefni að árangur íslenskra unglinga árið 2018 sé betri en árið 2015 og liggi nú yfir OECD-meðaltalinu þá er enn þá nokkuð langt í land að við náum sama góða árangri og árið 2003 en þá var stigafjöldinn 515 stig,“ segir Freyja.
Ef skoðuð er dreifing á árangri íslenskra unglinga á hæfniþrep kemur fram að fjöldi á neðstu hæfniþrepum (fyrir neðan hæfniþrep 2) hefur minnkað um 3 prósentustig frá árinu 2015 en fjöldi á hæfniþrepum 5 og 6 stendur í stað frá því ári.
Til lengri tíma litið hefur fækkað töluvert á efri hæfniþrepum því árið 2003 voru 16% unglinga á hæfniþrepum 5 og 6 en árið 2018 10%. Fyrir neðan hæfniþrep 2 voru árið 2003 15% íslenskra unglinga en samsvarandi hlutfall árið 2018 er 20%.
Hún bendir á að stór hluti stærðfræðiverkefna í PISA er lagður fyrir aftur og aftur sem þýðir einfaldlega að íslenskum unglingum gengur verr og verr að leysa sömu verkefni.
„Þegar árangur áranna 2003 og 2012 er skoðaður eftir stærð skóla kemur í ljós að skólar með flesta þátttakendur í PISA koma marktækt betur út en þeir sem hafa færri nemendur. Með öðrum orðum er árangur skóla með yfir 40 þátttakendur í PISA betri en árangur skóla með færri þátttakendur.
Árið 2015 var gerð tilraun til að grafast fyrir um ástæður þessa munar með rannsókn sem gerð var á ýmsum þáttum sem varða stærðfræðikennara á unglingastigi í um 30 skólum úr þremur mismunandi stærðarflokkum.
Kannað var hversu mikla menntun og reynslu þessir kennarar hefðu og leiddi rannsóknin í ljós að ekki var munur á menntun kennaranna eftir stærð skóla. Það sem helst var öðruvísi í skólum með meira en 40 þátttakendur í PISA var að þar höfðu kennarar meiri möguleika á faglegu samstarfi við aðra stærðfræðikennara, þeir kenndu í ríkara mæli mörgum bekkjum sama námsefnið og voru í meira mæli í fullu starfi við stærðfræðikennslu. Niðurstöður úr TALIS-könnuninni frá árinu 2018 benda til að um tveir af hverjum þremur sem kenndu stærðfræði í 10. bekk árið 2018 hafi formlega menntun á því sviði,“ segir í grein Freyju en hana má lesa í heild hér.
Sverrir Óskarsson, sviðsstjóri á matssviði hjá Menntamálastofnun, fagnar niðurstöðum PISA í stærðfræði og telur mikilvægt að þær séu notaðar til að ígrunda stöðu íslensks menntakerfis. „PISA er ákveðin könnun á ákveðnum þáttum í þekkingu og færni nemenda og við skulum nota hana sem uppbyggilega endurgjöf í umræðu um skólastarfið og framtíð þess. Það er gleðilegt að stærðfræðin er á uppleið og það má hrósa nemendum, kennurum og fleirum fyrir þessa flottu útkomu,“ segir hann á vef Menntamálastofunar.
Læsi íslenskra nemenda á náttúruvísindi í PISA 2018 mælist svipað og í síðustu tveimur könnunum og er undir meðaltalinu í löndum OECD.
Í PISA-könnuninni árið 2015 var læsi á náttúruvísindi aðalsvið og frammistaðan á Íslandi 2018 er nánast óbreytt. Ef horft er lengra aftur má hins vegar sjá að meðalstig íslenskra nemenda hafa lækkað um samtals 18 stig síðan læsi á náttúruvísindi var fyrst aðalsvið PISA árið 2006. Þetta samsvarar 5,4 stiga lækkun að meðaltali milli kannana sem er marktæk afturför. Læsi íslenskra nemenda á náttúruvísindi hefur verið undir meðaltalinu í OECD-löndunum síðan 2012. Innan OECD landa voru aðeins átta lönd sem hlutu marktækt færri stig en Ísland, eitt land – Lúxemborg – fékk álíka mörg stig en 27 lönd skoruðu marktækt hærra.
Í PISA 2018 voru 25% nemenda á Íslandi, eða fjórði hver nemandi, undir hæfniþrepi 2, og teljast því ekki búa yfir grunnhæfni í læsi á náttúruvísindi. Hlutfallið er nánast óbreytt frá því í síðustu könnun (25,3%). Hlutfall afburðanemenda, eða þeirra sem eru yfir þrepi 4, er einnig óbreytt (3,8%) og er lágt í samanburði við sama hlutfall í lesskilningi (7,1%) og læsi á stærðfræði (10,4%). Ef litið er aftur til 2006 má sjá að færri nemendur voru undir hæfniþrepi 2 í læsi á náttúruvísindi þegar sviðið var fyrst aðalsvið (20,5%) og fleiri yfir þrepi 4 (6,3%).
Frammistaða beggja kynja á Íslandi í læsi á náttúrvísindi er undir meðaltali OECD-landa. Stúlkur skora þó tæplega fimm stigum hærra en í síðustu könnun en frammistaða drengja er nánast óbreytt.
Bæði stúlkur og drengir á Íslandi hafa verið talsvert undir meðaltali OECD frá könnun PISA 2012. Stigafjöldi hjá stúlkum er hærri í PISA 2018 en í síðustu könnun, sem er þó ekki marktæk breyting. Ef litið er til þeirra ára þegar læsi á náttúruvísindi var aðalsvið PISA – 2006 og 2015 – má sjá að frammistöðu beggja kynja hrakaði nokkuð milli kannana.
Samtals voru 22,2% stúlkna og 27,8% drengja undir hæfniþrepi 2 í PISA 2018 og teljast því ekki búa yfir grunnhæfni í læsi á náttúruvísindi. Hlutfall hvors kyns undir hæfniþrepi 2 hefur lítið breyst frá því í síðustu könnun: hlutfall stúlkna hefur lækkað um tvö prósentustig en hlutfall drengja aukist um u.þ.b. eitt prósentustig.