„Þörf á meira samráði og samvinnu“

Kjartan Þorkelsson er lögreglustjóri á Suðurlandi og verður starfandi ríkislögreglustjóri …
Kjartan Þorkelsson er lögreglustjóri á Suðurlandi og verður starfandi ríkislögreglustjóri frá áramótum. Það leggst vel í hann. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég vil byrja á að þakka traustið sem mér er sýnt með því að fela mér þetta starf og mér lýst vel á það sem er fram undan,“ segir Kjartan Þorkelsson, lögreglustjóri á Suðurlandi og verðandi ríkislögreglustjóri, aðspurður hvernig það leggist í hann að taka við embættinu tímabundið.

Kjartan verður settur í embættið til bráðabirgða frá áramótum, á meðan leit stendur yfir að eftirmanni Haraldar Johannessen, sem gegnt hefur starfinu í 22 ár. Hann segir að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hafi leitað til hans um að taka við starfinu um helgina og hann hafi svo mætt á fund ráðherra í gær þar sem gengið var frá málunum.

„Mitt hlutverk er að undirbúa þessar breytingar og vinna að því og mér líst mjög vel á þennan samráðsvettvang, þetta lögregluráð. Ég held að það geti skilað miklu fyrir lögregluna,“ segir Kjartan, sem segir að aðrir lögreglustjórar sem hann hefur rætt við séu sama sinnis, sáttir við það sem dómsmálaráðherra kynnti á blaðamannafundi í dag.

„Ég held að það hafi verið þörf á meira samráði og meiri samvinnu, það er það sem við þurfum að leggja áherslu á og líka það að þessar breytingar verði unnar vel þannig að þær skili tilætluðum árangri og verði til þess fallnar að styrkja löggæsluna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert