„Þessar tillögur eru stór áfangi í náttúruvernd á Íslandi,“ segir Tryggvi Felixson, formaður Landverndar. „Ég hefði þó gjarnan viljað sjá að viss svæði í útjaðri hálendisins yrðu innan þjóðgarðsins og svo er spurning hve mikil völd fámenn sveitarfélög eigi að hafa um stjórn og skipulag þjóðgarða, samanber að þeir eru sameign allra landsmanna.“
Nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands skilaði Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfisráðherra í gær skýrslu um málið. Í nefndinni sátu fulltrúar allra þingflokka á Alþingi, Sambands íslenskra sveitarfélaga, umhverfis- og auðlindaráðuneytis og forsætisráðuneytis.
Miðhálendið, sem svo er kallað, spannar 40 þúsund ferkílómetra, og eru um 85% þeirra þjóðlendur. Eru þær, að friðlýstum lendum meðtöldum, svæðið sem hálendisþjóðgarðurinn á að spanna. Gert er ráð fyrir að ráðherra leggi á vorþingi fyrir Alþingi fram frumvarp sem byggist á tillögunum sem kynntar voru ráðherra í gær, að því er fram kemur í umfjöllun um þjóðgarðsmálin í Morgunblaðinu í dag.