Óskýrt samband barnabóta og frjósemi

Kolbeinn Stefánsson á fundinum í morgun.
Kolbeinn Stefánsson á fundinum í morgun. mbl.is/RAX

Niðurstöður rannsókna á sambandi barnabóta og frjósemi eru allt annað en afgerandi, þrátt fyrir hugmyndina um að fjárhagur fólks setji einhvers konar skorður varðandi barneignir og með því að létta á þeim sértu að hvetja fólk til að eignast fleiri börn.

Þetta segir Kolbeinn Stefánsson, doktor í félagsfræði, sem kynnti í morgun skýrslu sem hann vann fyrir BSRB um barnabótakerfið á Íslandi. Þar kemur fram að niðurstöður sumra rannsókna benda til að áhrif barnabóta á frjósemi séu engin og þegar tölfræðilegt samband finnst þá sé það yfirleitt veikt.

„Þetta er mjög flókið orsakasamband sem hangir saman við gildi og viðmið í sambandi við barneignir og aðra þætti sem skipta máli í fjölskyldustefnu. Þættir eins og til dæmis umönnunarábyrgð gagnvart öldruðum, fötluðum og veikum skyldmennum þrengja að tíma fólks. Við þurfum ekki bara meiri peninga fyrir börnin okkar, það þarf tíma í krílin líka,“ segir Kolbeinn.

Frá fundinum á Grand hóteli.
Frá fundinum á Grand hóteli. mbl.is/RAX

Liðlegir vinnuveitendur

Hann nefnir einnig samspil vinnu og heimilis. Niðurstöðurnar benda til þess að þar sem kerfið er sterkt og umönnununarbil ekki til staðar á milli fæðingarorlofs og daggæslu skipta barnabætur töluverðu máli fyrir frjósemi.

„Ísland er að mörgu leyti land þar sem maður myndi halda að þessi skilyrði séu til staðar. Hins vegar erum við með þunga umönnunarábyrgð, það er eitthvað sem við þyrftum að horfa á og vinnutíminn er að einhverju leyti langur en öll þau gögn sem ég hef séð um vinnulíf fólks benda til þess að íslenskir vinnuveitendur séu ákaflega liðlegir með því að veita fólki sveigjanleika til að sinna fjölskyldu og umönnun þegar þannig stendur á,“ greinir hann frá. „Í þessu dæmi er ekki vandamálið endilega hjá atvinnurekendum heldur kannski meira vegna þjónustukerfis og stuðnings við fjölskyldulíf.“

Veruleikinn breytist en kerfin ekki

Fram kom í máli Kolbeins þegar hann kynnti skýrsluna á Grand Hóteli í morgun að íslenskt fjölskyldumynstur hefði breyst mikið frá því sem áður var en barnabótakerfið aftur á móti haldist óbreytt.

Spurður hvort stjórnvöld hafi sofið á verðinum segir hann barnabótakerfið vera í eðli sínu pólitískt eins og önnur svipuð kerfi. „Stóra pólitíska mómentið fyrir hvert opinbert kerfi liggur í því þegar því er komið á fót. Þá eru grundvallareiginleikar þess skilgreindir. Þá erum við komin með svokallað „path dependency“. Eftir það verður erfitt að gera róttækar breytingar. Almennt séð eru íslensk bótakerfi ofboðslega lágtekjumiðuð. Þetta snýst að einhverju leyti um það að halda niðri kostnaði og draga úr skattheimtu,“ segir Kolbeinn og bendir einnig á að ákveðinn sjálfsbjargarkúltúr hafi viðgengist á Íslandi þar sem fólki þyki skammarlegt að þiggja stuðning og leiti ekki eftir honum nema í neyð.

„Svo er það dálítið með svona kerfi að þau breytast oft lítið en veruleikinn sem þau eiga að tækla breytist. Við höfum séð að fjölskyldulíf á Íslandi hefur tekið verulegum breytingum á undanförnum áratugum. Við erum komin með skiptari búsetu barna í skilnaðarfjölskyldum og miklu meiri þátttöku feðra í uppeldi og umönnun barna. Alls konar svona þættir hafa breyst í grundvallaratriðum en kerfishugsunin hefur ekki alveg náð utan um þetta.“

Hann bætir við að vegna þess hve barnabótakerfið er lágtekjumiðað og millitekjuhóparnir eiga enga hlutdeild í því þá er þeim að mestu leyti sama um það. Fyrir vikið hefur kerfið mjög lítið pólitískt vægi og hefur nánast dagað uppi í kjölfar bankahrunsins. Þess vegna þarf að endurskoða kerfið og markmiðin í kringum það.

Notað sem fátækrahjálp á barnafjölskyldur 

Áður en Kolbeinn vann skýrsluna vissi hann að Ísland hefur tilhneigingu til að vera með lágtekjumiðuð bóta- og velferðarkerfi en hann kveðst ekki hafa áttað sig á hversu afgerandi þau eru. „Það er ekkert sem örlar á þessari hugsun að jafna á milli barnlausra og barnafjölskyldna í íslenska barnabótakerfinu, sem er megináherslan á hinum Norðurlöndunum. Við erum að nota kerfið fyrst og fremst sem einhvers konar fátækrahjálp fyrir barnafjölskyldur á meðan hin Norðurlöndin eru að reyna að draga almennt séð úr afleiðingum barneigna og eitt af meginmarkmiðunum þar er að reyna að losa um fjárhagslegar skorður á barneignir," segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert