Ríkið tekur til varna gegn Ólafi

Ólafur Ólafsson kærði ríkið til MDE vegna hlutabréfaviðskipta tveggja hæstaréttardómara …
Ólafur Ólafsson kærði ríkið til MDE vegna hlutabréfaviðskipta tveggja hæstaréttardómara fyrir hrun. Málið verður tekið til efnismeðferðar hjá dómstólnum. mbl.is/Golli

Íslenska ríkið mun taka til varna fyr­ir Mann­rétt­inda­dóm­stóli Evr­ópu (MDE) í máli Ólafs Ólafs­son­ar, sem kærði ríkið til MDE fyrr á ár­inu vegna fjár­fest­inga hæsta­rétt­ar­dóm­ar­anna Markús­ar Sig­ur­björns­son­ar og Árna Kol­beins­son­ar í aðdrag­anda banka­hruns.

Mann­rétt­inda­dóm­stóll­inn sendi málsaðilum bréf í haust, þar sem þess var meðal ann­ars farið á leit við ríkið að at­huga hvort hægt væri að ná sátt við Ólaf vegna máls­ins. Dóm­stóll­inn sagði slíka sátt geta grund­vall­ast á skaða- og miska­bót­um vegna dóms Ólafs í Al-Thani-mál­inu svo­kallaða, en í því var Ólaf­ur dæmd­ur í fjög­urra og hálfs árs fang­elsi fyr­ir markaðsmis­notk­un.

Einnig bað dóm­stóll­inn um að ríkið og Ólaf­ur svöruðu spurn­ing­um um um­fang hluta­bréfa­eign­ar dóm­ar­anna tveggja. 

Ríkið taldi ekki hægt að sætta málið að svo stöddu

Í bréfi MDE kom fram að málið yrði tekið til efn­is­meðferðar ef sætt­ir næðust ekki fyr­ir 2. des­em­ber. Embætti rík­is­lög­manns hef­ur farið yfir málið og fundað með dóms­málaráðuneyti vegna þess og varð niðurstaðan sú, sam­kvæmt svari embætt­is rík­is­lög­manns við fyr­ir­spurn mbl.is, „að ekki sé hægt að sætta málið að svo stöddu“.

Lög­manni Ólafs var til­kynnt um þessa af­stöðu rík­is­ins í síðustu viku og til­kynn­ing þess efn­is send MDE á mánu­dag. „Mun ís­lenska ríkið því taka til varna í mál­inu,“ seg­ir í svari embætt­is rík­is­lög­manns.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert