Standa vörð um arfleifðina

Birgitta Spur, ekkja Sigurjóns Ólafssonar, við Úlfalda, verk eftir listamanninn …
Birgitta Spur, ekkja Sigurjóns Ólafssonar, við Úlfalda, verk eftir listamanninn frá 1978-1979. mbl.is/RAX

Styrktarsjóður Listasafns Sigurjóns Ólafssonar hefur gefið út heimildaritið Listasafn Sigurjóns Ólafssonar – tilurð og saga, sem Birgitta Spur, ekkja listamannsins, ritstýrði. Af því tilefni býður styrktarsjóðurinn til fagnaðar í safninu á Laugarnesi í dag kl. 17. Dagskráin endurspeglar breiddina í starfsemi safnsins, sem frá upphafi hefur fjallað um myndlist, tónlist, bókmenntir og náttúru- og menningarminjar á Laugarnesi.

Birgitta tileinkar ritið afkomendum sínum og velunnurum safnsins sem studdu hana þegar staðið var að uppbyggingu þess. „Mér er mikið í mun að til séu aðgengilegar heimildir um safnið og starfsemi þess,“ segir Birgitta um verkið.

Í bókinni rekur Birgitta 35 ára sögu safnsins og styðst við dagbækur, sendibréf, blaðaúrklippur, ljósmyndir og ársskýrslur safnsins. Margar blaðagreinar, einkum úr Morgunblaðinu, eru birtar sem myndir eins og þær komu fyrir í upphafi, og með skýringum Birgittu er um að ræða ítarlega samantekt um mikilvæga menningarstarfsemi.

Erfiður rekstur

Eftir lát Sigurjóns 20. desember 1982 var Birgittu mikill vandi á höndum og 1. desember 1984 stofnaði hún einkasafnið Listasafn Sigurjóns Ólafssonar í þeim tilgangi að halda utan um hátt í tvö hundruð listaverk Sigurjóns og varðveita þau á þeim stað sem þau voru sköpuð. Hún segir að þegar Sigurjón féll frá hafi húsnæðið verið gamalt og úr sér gengið og miklar endurbætur nauðsynlegar. Stofnun einkasafns hafi verið byrjunin á uppbyggingunni en síðan hafi þurft að afla fjármagns til að gera við vinnustofuna, svo hún gæti þjónað til sýninga.

Haustið 1988 var safnið opnað almenningi og ári síðar gert að sjálfseignarstofnun og rekið með sjálfsaflatekjum og styrkjum frá ríki og borg fram til ársins 2012, þegar Listasafn Íslands tók við rekstrinum.

Birgitta segir að rekstrarfjármagn hafi ekki verið sjálfgefið. Framlag borgarinnar hafi alltaf verið minna en framlag frá ríkinu. „Á árunum eftir bankahrunið 2008 var staðan svo alvarleg að við blasti að hætta þyrfti rekstri safnsins,“ segir hún.

Birgitta segist vera ánægð með það sem tókst að gera: að breyta fátæku listamannaheimili í menningarstofnun þar sem menningararfurinn, verk Sigurjóns Ólafssonar, er þungamiðjan.

„Við höfum staðið vörð um arfleifð Sigurjóns með þeim árangri að fjallað hefur verið um list hans erlendis og verkin farið á sýningar þar, og til dæmis hefur hann aftur verið dreginn fram í sviðsljósið í Danmörku,“ segir Birgitta. „List hans er alþjóðleg.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert