Útkoman er umhugsunarverð

Munur á árangri landshluta er verulegt áhyggjuefni, segir formaður Kennarasambands …
Munur á árangri landshluta er verulegt áhyggjuefni, segir formaður Kennarasambands Íslands. mbl.is/Hari

Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands, segir umhugsunarvert að á sama tíma og stjórnvöld hafi með margvíslegum aðgerðum reynt að efla lesskilning íslenskra barna sé hann að dvína. 

„Síðustu ár hafa stjórnvöld lagt mikla áherslu á læsi og öll sveitarfélög og grunnskólar landsins tekið virkan þátt í aðgerðunum. Þrátt fyrir það dalar læsi milli kannana á meðan við höldum sjó í hinum greinunum sem ekki voru lagðar undir átak stjórnvalda. Útkoman er því umhugsunarverð,“ segir Ragnar Þór Pétursson.

Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands.
Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Ragnar Þór segir jákvætt að menntamálaráðherra styðjist í auknum mæli við rannsóknir þegar stefna stjórnvalda í skólamálum er greind og mörkuð. „Svo virðist sem í íslensku menntakerfi séu að einhverju leyti lagðar aðrar áherslur en tíðkast víða annars staðar. Það virðist hafa það í för með sér að nemendur fást oft við frekar yfirborðskennda hæfni í stað dýpri.“

Ragnar vekur athygli á því að hjá OECD sé bent á að á Íslandi teljist þau stærðfræðidæmi þung sem nemandinn eigi erfiðara með að skilja, þó að stærðfræðin á bak við dæmið sé einföld. Í þessu sambandi þurfi að skoða hvort minnkandi málheimur íslenskunnar sé skýring.

„Á hinn bóginn reynast okkar nemendur eiga létt með ákveðin atriði sem almennt eru talin þung. Við erum rétt að gára yfirborðið í þessum einkennilegu þversögnum,“ segir Ragnar Þór, sem kveðst hafa áhyggjur af meintum vaxandi ójöfnuði í íslensku skólakerfi. Við séum í slæmri stöðu ef tækifæri til menntunar séu í grundvallaratriðum ólík eftir félagslegum bakgrunni eða þjóðfélagsstöðu. „Vaxandi kennaraskortur og takmörkuð gæði í menntakerfinu geta flýtt slíkri þróun ef við spyrnum ekki fast við fótum. Munur á árangri landshluta er verulegt áhyggjuefni. Hingað til höfum við látið duga að hafa áhyggjur af mönnun skólanna yfirleitt en til framtíðar litið þurfum við að tryggja að sumt af okkar allra besta fólki fari til starfa úti á landi, samanber að börn þar koma lakar út í könnun PISA en nemendur í skólum í Reykjavík.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka