Framkvæmdir eru hafnar við nýtt baðlón vestast á Kársnesi í Kópavogi. Það mun opna dyr sínar fyrir gestum á árinu 2021. Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir heitu baðlóni við sjóinn með útsýni út á hafið og til Bessastaða, kaldri laug og gufuböðum.
Kostnaður við þann áfanga er áætlaður 4 milljarðar króna. „Búið er að vinna að þessu verkefni í mörg ár. Það er komið á þann stað núna að framkvæmdir eru að hefjast,“ segir Gestur Þórisson, einn af aðstandendum verkefnisins í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Jarðvinna er hafin á lóð fyrirtækisins og búist við að steypuvinna hefjist í næstu viku. Í þessum fyrsta áfanga verður baðlón ásamt kaldri laug og gufuböðum með tilheyrandi mannvirkjum. Jafnframt aðstaða fyrir veitingasölu og aðra þjónustu við gesti.
Fyrirhugað er að ráðast í frekari uppbyggingu á lóðinni sem er um 3 hektarar að stærð, meðal annars að stækka baðlónið ásamt mannvirkjum sem því fylgir.