Miðlun símtalaskrár talin brot

mbl.is/​Hari

Persónuvernd hefur úrskurðað að miðlun vinnuveitanda á símtalaskrá úr vinnusíma fyrrverandi starfsmanns til fyrrverandi eiginkonu mannsins hafi ekki samrýmst ákvæðum persónuverndarlaga.

Enn fremur taldi Persónuvernd að meðferð fyrirtækisins á tölvupósthólfi mannsins eftir starfslok hans hafi ekki verið í samræmi við reglur um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga. Þetta kemur fram í nýjum úrskurði Persónuverndar.

Í úrskurðinum er einnig gagnrýnt að manninum, sem kvartaði til Persónuverndar vegna málsins, hefði hvorki verið gefinn kostur á að eyða né taka afrit af einkatölvupósti, né að vera viðstaddur skoðun tölvupósthólfsins. Þá hafi tölvupósthólfi mannsins ekki verið lokað innan tilskilins tíma.

Fram kemur að eftir að maðurinn lét af störfum hjá fyrirtækinu hafi fyrrverandi eiginkonu hans borist ábyrgðarbréf sem var opnað á skrifstofu lögmanns og reyndist innihalda 73 blaðsíður af símtalaskrám vegna símanúmers, sem var vinnusími mannsins á meðan hann starfaði hjá fyrirtækinu. Einnig hafi fyrirsvarsmaður fyrirtækisins, sem nú er gjaldþrota, framsent til mannsins fjölda tölvupósta úr vinnutölvupósthólfi hans. Manninum hafi ekki verið gerð grein fyrir að fyrirsvarsmaðurinn hygðist skoða tölvupóst hans eða gefist kostur á að vera viðstaddur. Í skýringum fyrirtækisins kom fram að manninum hafi verið tilkynnt að gögn yrðu send á heimili hans en þar sem hann var ekki skráður þar skv. já.is hafi bréfið verið stílað á konu hans til að tryggja að bréfið bærist honum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka