„Stenst samanburð við það besta í heiminum“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var meðal þeirra sem kynntu nýja samkomulagið …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var meðal þeirra sem kynntu nýja samkomulagið í fangelsinu á Hólmsheiði í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta markar þau tímamót að núna erum við í fyrsta skipti að bjóða upp á, ekki bara ásættanlegt ástand í geðheilbrigðismálum fanga, heldur ástand sem er til fyrirmyndar.“ Þetta segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is í kjölfar þess að nýtt samkomulag um geðheilbrigðismál fanga var kynnt í morgun.

Komið hefur verið á laggirnar sérhæfðu geðheilsuteymi sem er skipað geðlækni og fjórum öðrum sérfræðingum sem munu sinna geðheilbrigðismálum í fangelsum landsins. Svandís segir að þetta hafi verið gert í samræmi við ábendingar frá CPT-nefnd Evrópuráðsins, en það er svokölluð pyntinganefnd um varnir gegn pyntingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Auk þess segir hún þetta tilkomið vegna þeirrar umræðu sem hafi verið í gangi lengi í samfélaginu um að nauðsynlegt sé að bæta geðheilbrigðismál í fangelsum.

„Með þessu erum við að stíga fram um marga áratugi“

Svandís segir að breytingin nú sé stórt skref fram á við. „Með þessu erum við að stíga fram um marga áratugi. Við erum komin með fyrirkomulag sem stenst samanburð við það besta í heiminum. Þetta er eins og á að gera það,“ segir hún og bendir á að miðað við stöðuna sem hefur verið, þegar enginn geðlæknir sé til staðar og þjónustan sé takmörkuð og borin uppi af veikum mætti yfir í geðheilsuteymi, sé um himin og haf að ræða.

„Við gerum ráð fyrir að heilsugæslan sinni heilsugæsluhlutanum og að geðheilsuteymi sinni sambærilegum verkefnum og geðheilsuteymin sem við erum að setja upp um allt land,“ segir Svandís, en með því muni skapast ákveðin samfella fyrir fanga sem þurfa á þessari þjónustu að halda frá því fyrir afplánun, meðan á afplánun stendur og eftir að henni lýkur.

Nýtt samkomulag vegna geðheilbrigðisþjónustu við fanga kynnt í fangelsinu á …
Nýtt samkomulag vegna geðheilbrigðisþjónustu við fanga kynnt í fangelsinu á Hólmsheiði í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hópur í mjög sérstakri stöðu

„Með þessu horfumst við í augu við að þessi hópur er í mjög sérstakri stöðu. Þetta eru oft einstaklingar sem hafa veikan félagslegan bakgrunn og hafa lent í miklum áföllum og eru svo komnir í þá stöðu að vera sviptir frelsi sínu sem afleiðing af dómi. Það út af fyrir sig er gríðarlegt álag sem kallar á geðheilbrigðisþjónustu,“ segir Svandís.

Hún telur það kerfi sem nú sé verið að taka upp munu ýta undir þá hugmyndafræði að fangar eigi auðveldara með að koma aftur sem þátttakendur út í samfélagið, að kerfið ýti undir betrunarvist frekar en refsivist. „Það að einstaklingar fái ekki notið slíkrar þjónustu við þessar aðstæður dregur úr líkum á því að viðkomandi geti komið aftur heill út í samfélagið að aflokinni afplánun. Þess vegna erum við að tryggja meiri samfellu á þjónustu, betri þjónustu sem um ræðir og meiri líkur á því að viðkomandi geti aftur orðið þátttakendur í samfélaginu. Fangar mega og eiga ekki að vera sviptir sjálfsögðum réttindum eins og réttindum til heilbrigðisþjónustu. Við erum með þessu því að komast mun nær þeirri nálgun að full þátttaka í samfélaginu að lokinni afplánun sé raunverulegt markmið,“ segir Svandís.

„Þetta fyrirkomulag er komið til að vera

Fyrsta árið verður notað sem undirbúningstímabil og segir Svandís að þá verði safnað upplýsingum og gögnum um hvað gefist best í þessari þjónustu. „Þetta fyrirkomulag er komið til að vera, en fyrsta árið er undirbúningsfasi,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert