Stofna geðheilsuteymi fanga

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti aðgerðirnar á blaðamannafundi í morgun.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti aðgerðirnar á blaðamannafundi í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í morgun skrifuðu Sjúkratryggingar Íslands og heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu undir samning þess efnis að heilsugæslunni yrði falið að sinna geðheilbrigðisþjónustu við fanga í öllum fangelsum landsins. Stofnað verður sérhæft, þverfaglegt geðheilsuteymi fanga sem mun starfa með og styðja við starfsemi heilsugæslunnar í fangelsum.

Framlög til geðheilbrigðisþjónustu fanga verða jafnframt aukin úr 55 milljónum, sem áður höfðu verið teknar til hliðar, í 70 milljónir á næsta ári að því er fram kom í máli Svandísar á blaðamannafundi í fangelsinu á Hólmsheiði í morgun.

Fram kom á fundinum að auk læknis verði fjórir starfsmenn í fullu starfi sem muni koma að þessu verkefni, en það er sett upp sem tímabundið undirbúningsverkefni til eins árs. Á fundinum var spurt hvenær það myndi byrja og svaraði Svandís: „Það byrjaði í gær,“ en þegar hefur Sigurður Örn Hektorsson geðlæknir verið fenginn til að stýra teyminu.

Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Páll Winkel fangelsismálastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þetta er í fyrsta sinn sem geðlæknir starfar innan fangelsisins.

Þetta samkomulag núna kemur í kjölfar vinnu sem hófst eftir úttekt CPT-nefndar Evrópuráðsins (svokallaðrar pyntinganefndar), en þar voru meðal annars gerðar athugasemdir við fyrirkomulag geðheilbrigðisþjónustu við fanga og lögð áhersla á að geðheilbrigðisþjónusta innan fangelsa eigi að vera sambærileg þeirri þjónustu sem aðrir landsmenn njóta eftir því sem mögulegt er, að teknu tilliti til sérþarfa fanga.

Geðheilsuteymi fanga verður mannað með geðlæknum, sálfræðingum og hjúkrunarfræðingum og öðrum fagstéttum á þessu sviði eftir því sem þörf krefur, að því er fram kom á blaðamannafundi í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert