Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir að vanda verði til verka ef stýra þarf aðgengi að skólanum og þá myndi samræmt stúdentspróf vera betri kostur en svokallað A-inntökupróf sem notað hefur verið á undanförnum árum.
Háskóli Íslands hefur á undanförnum árum náð góðum árangri samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum og sækir fram bæði á sviði rannsókna og kennslu. Tryggja þarf að fjármögnun Háskóla Íslands sé í takt við það sem gerist í nágrannalöndum okkar eigi hann að standa undir þeim kröfum sem gerðar eru til hans sem alþjóðlegs rannsóknarháskóla, segir Jón Atli.
Um mitt næsta ár rennur út skipunartími hans í embætti rektors og hefur Jón Atli ákveðið að gefa kost á sér í embættið áfram. Hann segir ástæðuna bæði vera þá að vel hafi gengið og að mörg verkefni séu í gangi sem hann hefur áhuga á að sinna áfram. Ekki spilli fyrir að skólinn sé á góðri siglingu og starfið skemmtilegt.
Jón Atli og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, eru á nýjum lista Clarivate Analytics yfir áhrifamestu vísindamenn heims sem var birtur í síðasta mánuði.
Clarivate Analytics hefur undanfarin fimm ár birt slíkan lista en hann nær til þess eins prósents vísindamanna innan hverrar fræðigreinar sem mest er vitnað til í vísindagreinum sem birtast í alþjóðlegum vísindatímaritum. Listinn byggist á gögnum úr gagnabankanum Web of Science og í ár er tekið mið af tilvitnunum á árabilinu 2008 — 2018. Listinn í ár nær til um 6.200 vísindamanna á 21 fræðasviði en þess má geta að í hópnum eru 23 Nóbelsverðlaunahafar.
Jón Atli Benediktsson er prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræðideild og hefur starfað við Háskóla Íslands frá árinu 1991. Hann tók við embætti rektors Háskóla Íslands 1. júlí 2015.
Jón Atli er höfundur yfir 300 fræðigreina og bókarkafla á sviði rafmagns- og tölvuverkfræði. Hann er í hópi fremstu vísindamanna heims á sviði fjarkönnunar en hún felst í því að taka stafrænar myndir úr flugvélum, drónum og gervitunglum og vinna úr þeim hvers kyns upplýsingar um yfirborð jarðarinnar. Mikið er vitnað til verka Jóns Atla og þá hefur hann fengið margvíslegar viðurkenningar á alþjóðavettvangi og hér heima fyrir rannsóknir sínar, segir á vef Háskóla Íslands.
Að sögn Jóns Atla er gott samstarf milli Háskóla Íslands og stjórnvalda. „Ríkisstjórnin stefnir að fjármögnun háskólastigsins sem er í samræmi við meðaltal OECD-ríkjanna og svo síðar meðaltal Norðurlandanna. Þegar hafi verið stigin mikilvæg skref. Aukið fjármagn inn í háskólakerfið undanfarin ár var gríðarlega mikilvægt því háskólastigið var hreinlega í krísu eftir efnahagshrunið. En nú er brýnt að taka frekari skref til að uppfylla ákvæði í sáttmála ríkisstjórnarinnar, það er að árið 2025 verði framlög á hvern nemanda sambærileg við meðaltal Norðurlanda.“
Jón Atli bendir á að það sé nokkuð flókið verkefni því útfærslurnar eru ólíkar eftir löndum. „En okkar útreikningar benda til þess að það skorti um 12 milljarða kr. ef miðað er við óbreyttan nemendafjölda til að ná þessu markmiði. Hann bætir við að miðað sé við að HÍ leggi sjálfur til einn þriðja af fjármögnun skólans í sjálfsaflafé, svo ríkisframlagið sé um 8 milljarðar.
Þótt útreikningarnir séu flóknir bendir Jón Atli á að það sé þó óumdeilt að Ísland sé eftirbátur hinna Norðurlandanna þegar kemur að fjárfestingu í háskólastiginu. „Samkeppnishæfni Íslands er undir og fyrir Háskóla Íslands er algjörlega nauðsynlegt að við förum þangað.“ Gagnrýnisraddir hafa heyrst þar sem þetta er útgjaldamarkmið en Jón Atli segir „við getum ekki þróast áfram á meðan við erum hálfdrættingar eða jafnvel annað verra miðað háskóla sem eru sambærilegir okkar annars staðar á Norðurlöndum, svo sem Háskólinn í Bergen,“ segir Jón Atli.
Eitt af því sem Háskóli Íslands er að leggja aukna áherslu á í starfinu er kennsluþróun sem Jón Atli telur mjög jákvætt á sama tíma og skólinn er að koma vel út í alþjóðlegum könnunum. „Við höfum verið að stíga stór skref í kennslumálum, og sem dæmi má nefna að við höfum nýlega tekið til notkunar svokallað hús kennslunnar, Setberg, en húsið er ein elsta byggingin á háskólasvæðinu. Þar verður margvísleg þjónusta fyrir kennara og nemendur, allt frá fyrsta flokks aðstöðu fyrir fjarnám til stuðnings við starfsþróun kennara. Þetta er í samræmi við stefnu Háskóla Íslands um gæði náms og kennslu þar sem lögð er áhersla á fjölbreytta og nemendamiðaða kennsluhætti,“ segir Jón Atli.
Tveir af þekktustu matslistunum yfir bestu háskóla heims, Times Higher Education World University Rankings og Shanghai-listinn svokallaði, hafa í haust staðfest alþjóðlegan styrk Háskóla Íslands og stöðu hans sem rannsóknarháskóla. Háskóli Íslands hefur aldrei verið á fleiri listum Times Higher Education yfir fremstu skóla heims á afmörkuðum fræðasviðum, eða átta talsins. Háskóli Íslands er eini skólinn hér á landi sem kemst bæði á Times Higher- og Shanghai-listana, samkvæmt upplýsingum á vef Háskóla Íslands.
„Stóru fréttirnar hér eru að öll fræðasvið eru að mælast hátt á þessum listum. Það er mjög mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að hér sé svo stór og breiður háskóli með svo öflugan hóp vísindamanna í fjölmörgum fræðigreinum, ekki síst nú þegar sífellt meiri áhersla er lögð á þverfræðilegar rannsóknir. Við hjá Háskóla Íslands verðum að halda áfram að ná árangri fyrir íslenskt samfélag,“ segir Jón Atli og segir að leitað sé til skólans víða að auk þess sem margir óski eftir samstarfi við skólann.
Undanfarin ár hefur þeim farið sífellt fjölgandi sem ljúka doktorsprófi frá HÍ, bæði íslenskum sem erlendum nemendum. „Doktorsnámið hefur blómstrað að mörgu leyti,“ segir Jón Atli og að hans sögn hafa yfir 90 einstaklingar útskrifast með doktorsgráðu frá Háskóla Íslands það sem af er ári.
Spurður út í umræðu um skort á rannsóknarstyrkjum í doktorsnámi, en ríkisstjórnin hefur boðað niðurskurð til Rannsóknarsjóðs vísinda- og tækniráðs, sem er einn af helstu tekjumöguleikum doktorsnema, segir Jón Atli að þetta sé alvarlegt mál og eitt af því marga sem stjórnendur háskólans hafi rætt við stjórnvöld.
Hver er staða HÍ samanborðið við háskóla í nágrannalöndunum og er tryggt að þeir sem eru teknir inn í doktorsnám við skólann séu fjármagnaðir?
„Svo er víða í nágrannalöndunum. Í Svíþjóð eru til að mynda doktorsstyrkir sem fólk fær við upphaf náms og getur því starfað að fullu við rannsóknir meðan á námi stendur. Þetta þýðir að fólk þarf ekki að vinna með náminu og útskrifast þar af leiðandi fyrr,“ segir Jón Atli.
Undanfarin ár hefur nemendum við Háskóla Íslands fjölgað jafnt og þétt, en stytting stúdentsprófsins hefur þýtt að stórir árgangar hafa verið að koma inn í skólann. Á sama tíma hefur nemendum í meistaranámi fjölgað gríðarlega í sumum greinum enda ekki lengur boðið upp á embættispróf í ákveðnum greinum heldur BA/BS og síðan meistaranám, alls fimm ár.
„Það er orðið tímabært að við hlúum betur að meistaranáminu við Háskóla Íslands. Munur á doktors- og meistaranámi felst einkum í því að doktorsnámið er einstaklingsmiðað. Það þarf að taka fleiri námskeið á meistarastigi en einnig að þar þurfi töluverða sérhæfingu. Þetta þýðir að við þurfum bæði að fjölga námskeiðum og vera í alþjóðlegu samstarfi“. Hann segir að þröngur kostur Háskóla Íslands hafi komið í veg fyrir að hægt hafi verið að þróa meistarastigið nægilega og nú sé það orðið brýnt.
„Ég hef sagt að það sé mjög æskilegt að fólk fari til útlanda í nám þar sem það skilar aukinni fjölbreytni en við verðum að vera með þann valkost að fólk geti menntað sig hér á landi. Auk þess erum við að fá hingað fólk í nám erlendis frá í gegnum alþjóðlegt samstarf sem við erum í. Meistaranámið er afar mikilvægt námsstig hjá okkur og það þarf að efla,“ segir Jón Atli.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, nefndi á þingi Norðurlandaráðs í haust að ýmsar hindranir séu enn í vegi þegar kemur að norrænu samstarfi og nefnir þar háskólanám á Norðurlöndunum. Eystrasaltsríkin þrjú hafa þegar gefið út sameiginlega yfirlýsingu um að menntun á háskólastigi í ríkjunum eigi að vera jafngild og svipað er uppi á teningnum hvað varðar Benelúx-löndin. „Norðurlöndin, sem við segjum að eigi að vera samþættustu lönd í heimi, eru ekki búin að þessu,“ sagði Sigurður Ingi í samtali við mbl.is á þingi Norðurlandaráðs en hann er samstarfsráðherra Norðurlanda. Hann segir að þetta sé eitt af því sem verið er að skoða innan norrænu ráherranefndarinnar.
Jón Atli segir að háskólar starfi flestir í alþjóðlegu umhverfi og það sé hreinlega lífsnauðsynlegt að tryggja slíkt samstarf fyrir háskóla á Íslandi sem búa óhjákvæmilega í litlu vísinda- og fræðasamfélagi. „Við erum með fjölmarga samstarfssamninga bæði austan hafs og vestan,“ segir hann og nefndir einnig sérstaklega samstarf norrænna háskóla og Aurora- samstarfsnet háskóla en Jón Atli situr í stjórn Aurora-netsins.
Um er að ræða samstarfsnet níu háskóla sem komið var á fyrir þremur árum. Að því koma háskólar sem allir eru sterkir alhliða rannsóknaháskólar sem leggi jafnframt ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð. Háskólarnir eru Vrije Universiteit Amsterdam (Hollandi), Université Grenoble-Alpes (Frakklandi), University of Aberdeen (Skotlandi), Universiteit Antwerpen (Belgíu), Universitetet i Bergen (Noregi), Universität Duisburg- Essen (Þýskalandi), University of East Anglia (Englandi), Università degli Studi di Napoli Federico II (Ítalíu), Universität Innsbruck (Austurríki), Universitat Rovira i Virgili (Spáni) og Háskóli Íslands. Lykiláhersla er innan netsins á fjóra þætti: fjölbreytileika og aðgengi fyrir alla, áhrif og þýðingu rannsókna fyrir samfélagið, nýsköpun í kennslu og námi og málefni stúdenta.
Jón Atli segir að háskólarnir í Aurora-samstarfinu hafi svipaða sýn og samstarfið gangi afar vel. Um þessar mundir er verið að undirbúa þriggja ára samstarfverkefni og verði sótt um styrk til þess að móta sameiginlegt námsframboð skólanna í febrúar. Með þessu verði hægt að styrkja alþjóðlega samstarf skólanna verulega og eins eykur þetta líkur á fjölgun sameiginlegra prófgráða. „Þær eru orðnar nokkuð algengar við Háskóla Íslands,“ segir Jón Atli, sérstaklega á doktorsstiginu en um 10% þeirra sem útskrifast héðan eru með sameiginlega doktorsgráðu með erlendum háskólum.
„Ég hef verið mjög hrifinn af sameiginlegum prófgráðum því þrátt fyrir að vera rúmlega 100 ára gamall háskóli erum við ungur rannsóknaháskóli í alþjóðlegu samhengi. Það er gott að geta treyst á að vinna með öðrum með meiri reynslu. Nemandinn er skráður í sinn móðurskóla en hinn háskólinn kemur inn í þetta með rannsóknarstarfi og kennslu. Við erum til að mynda byrjuð á þessu samstarfi á norrænum vettvangi á meistarastiginu. Háskóli Íslands er með um 500 samninga við aðra háskóla og hefur meðal annars verið með sumarnámskeið í samstarfi við bandarísku háskólanna Caltech, Columbia og Standford,“ segir rektor HÍ.
Eitt af því sem mjög er rætt er stytting framhaldsskólans í þrjú ár sem tók gildi við flesta framhaldsskóla haustið 2015. Stytting námstíma til stúdentsprófs með því að stytta framhaldsskólann um eitt ár er einhver mesta breyting sem gerð hefur verið á íslenska framhaldsskólakerfinu.
Í nýrri skýrslu Samtaka atvinnulífsins er lagt til að skólaárum grunnskólans verði fækkað í níu með lengingu skólaársins. Það muni bæta námsrárangur, minnka umönnunarbil, draga úr kennaraskorti, hækka ævitekjur, vega á móti neikvæðum afleiðingum öldrunar þjóðarinnar, auka hagvöxt og stuðla að betri nýtingu fjár í kerfinu.
Á sama tíma sýnir PISA-könnunin að árangur íslenskra ungmenna fer síst batnandi í alþjóðlegum samanburði.
„Auðvitað er þetta áhyggjuefni. Þjóðir keppast við að fjárfesta í menntun til að stuðla að framþróun og tryggja lífsgæði. Við viljum að sjálfsögðu vera þjóð sem gerir slíkt hið sama og vísbendingar um að við þurfum að gera betur ber að taka mjög alvarlega. Sem betur fer höfum við margt með okkur. Háskólar og stjórnvöld eru sem dæmi samstillt í átaki sínu til að auka aðsókn í kennaranám, en vel menntaðir kennarar eru algjör lykill í því að tryggja gæði kennslu á öllum skólastigum. Einnig held ég að sóknarfæri felist í smæðinni, við höfum mörg tækifæri til að vinna vel saman á milli skólastiga og við þurfum að nýta þau tækifæri vel.“ Jón Atli bætir við að Háskóli Íslands eigi í reglulegu samráði við stjórnendur allra framhaldsskóla sem sé farsælt og mikilvægt.
Spurður út í áhrif þess að stytta grunnskólann segir Jón Atli að allar slíkar breytingar eigi að byggja á rannsóknum. Ef slík breyting yrði gerð ofan á styttingu framhaldsskólans þyrfti að hans áliti að endurhugsa grunnnám í háskólum. „Það er að mínu mati algerlega nauðsynlegt að setja meiri fjármuni í menntarannsóknir hér á landi. Það er mjög ánægjulegt, að sjá það sem er að gerast á menntavísindasviði HÍ í þeim efnum, en við þurfum að halda áfram að efla þessar rannsóknir. Við þurfum t.a.m. að rannsaka áhrifin af styttingu náms á framhaldsskólastigi. Unnið er að slíkum rannsóknum hér við háskólann en endanlegar niðurstöður liggja ekki fyrir.“
Er háskólinn að bregðast við þessari breytingu?
„Það sem við erum að gera er að taka betur á móti nemendum. Fræðasviðin hafa gert það sérstaklega til þess að halda nemendum og draga úr brottfalli. Við erum líka með reglulega samráðsfundi með skólameisturum framhaldsskólanna til að tryggja að það sé gott samtal þar á milli. En við getum örugglega gert fleira,“ segir Jón Atli.
„Síðan er kynjaskekkjan og það er áhyggjuefni að hlutfallslega mun færri karlar eru nemendur í skólanum en konur. Stór hluti af því ræðst af því að mun fleiri stúlkur útskrifast með stúdentspróf en drengir og því eru strákarnir að detta út áður en komið er inn í háskólann“ segir Jón Atli. Hann bætir við „en ég hef mestar áhyggjur af þeim stöku greinum þar sem kynjahallinn er mikill. Stúlkur sækja á í hefðbundnum „strákagreinum“, eins og verkfræði, en ekki öfugt. Þrátt fyrir ýmsar tilraunir til að rétta af kynjahallann í einstökum greinum hefur það ekki borið nægilegan árangur. Við reyndum á sínum tíma að laða að stráka í hjúkrunarfræði en þar hefur ekki orðið mikil breyting. Við sjáum jákvæð merki þó um fjölgun karla í kennaranámi. En þetta mál verður ekki eingöngu leyst þegar á háskólastigið er komið – það þarf samstilltar aðgerðir margra aðila sem beinast að nemendum á fyrri skólastigum.“
Jón Atli leggur áherslu á að það þurfi að hugsa um fjölbreytileika nemendahópsins út frá öllum mögulegum bakgrunnsbreytum, ekki bara kyni. Hann segir áhyggjuefni að börn innflytjenda sæki ekki háskólanám í sama mæli og aðrir hópar. Aftur er þetta vandamál sem má að hluta rekja til brotthvarfs á fyrri skólastigum en að öll skólastig verði markvisst að tryggja aðgengi og velferð nemenda af erlendum uppruna. Háskóli Íslands er þessa dagana að hrinda að stað nýju verkefni til að styðja börn innflytjenda betur til háskólanáms. Hópur ungmenna í framhaldsskólum sem eru af innflytjendabakgrunni verða valdir til verkefnisins. Þeir fá margvíslegan stuðning frá háskólanum á meðan þeir eru í framhaldsskóla og verður fylgt eftir áfram yfir í háskólanám. Þetta verkefni varð til upp úr Aurora-samstarfinu og byggir á verðlaunuðu verkefni við Duisburg-Essen-háskóla.
Eitt af því sem verið er að falla frá hjá Háskóla Íslands eru inntökupróf. Í hjúkrunarfræði og hagfræði er hætt að vera með svokölluð A-próf og lagadeildin er einnig að leggja til að hætta með slík inntökupróf. Þá niðurstöðu má að hluta rekja til fjármögnunarlíkani stjórnvalda sem geri deildum erfitt að reka sig án stórs hóps innritaðra nemenda.
„En ef það á að nota inntökuhömlur þarf að útfæra það mjög vandlega og byggja slíkar aðgerðir á rannsóknum og reynslu annarra landa. Að mínu mati væri það kostur að nota frekar samræmt stúdentspróf eins og í Svíþjóð fremur en A-prófið eitt og sér. Einnig þarf að vanda sig mjög við ákvörðun á fjölda nema í einstakar námsgreinar „Danir hafa nýlega tekið upp þá leið að tengja við stöðu á atvinnumarkaði við inntöku í háskóla og fækkað inntökufjölda ef atvinnuleysi er í greininni. Mér finnst þetta algjörlega röng nálgun. Nemendur eiga að hafa sem mest val og ég held að besta leiðin til að minnka brottfall og styðja við námsárangur sé að tryggja að nemendur hafi rétta og góða mynd af því námi sem er í boði og fái stuðning í að finna nám við hæfi,“ segir Jón Atli.
Hús íslenskunnar rís nú hratt eftir langa bið og stækkun Læknagarðs á spítalasvæðinu er á teikniborðinu. Þá styttist í flutning menntavísindasviðs úr Stakkahlíðinni yfir á háskólasvæðið í Vesturbænum. Ekki er endanlega frágengið hvernig það verður að sögn Jóns Atla en stefnt hefur verið að því allt frá sameiningu skólanna, HÍ og Kennaraháskólans árið 2008. Ýmislegt hefur tafið flutninginn, svo sem efnahagshrunið og tafir á byggingu Húss íslenskunnar.
En hvert flytur menntavísindasviðið? „Við erum að skoða ýmsa möguleika á svæðinu, bæði lóðir á háskólasvæðinu og mögulega nýbyggingu, sérstaklega á Vísindagarðasvæðinu og Grósku hugmyndahús sem verið er að leggja lokahönd á í Vatnsmýrinni.
Vísindagarðarnir rísa hratt að sögn Jóns Atla og þar verður rými fyrir háskólastarfsemi. Hann segir þá hugsaða sem samfélag háskóla og atvinnulífs. Jafnframt er Félagsstofnun stúdenta að reisa fleiri hundruð íbúðir fyrir stúdenta líkt og kveðið er á um í viljayfirlýsingu frá árinu 2014.
„Við erum líka að skoða heildarskipulag háskólasvæðisins og það er gríðarlega mikilvægt verkefni. Að hér verði háskólasvæði líkt og við þekkjum erlendis frá [campus] en hér er svæðið tvískipt þar sem Suðurgata sker það í sundur. Við erum að skoða möguleika hvernig við getum búið til eina heild og þar hjálpar að menntavísindasviðið er að koma hingað á háskólasvæðið,“ segir Jón Atli.
Fengnir voru ráðgjafar í lið með skólanum og hugmyndir eru nú ræddar við borgaryfirvöld og fleiri aðila. Meðal annars er rædd hugmynd ráðgjafanna um breið göng undir Suðurgötuna, að sögn rektors HÍ.
Tæp fimm ár eru liðin síðan Jón Atli varð rektor Háskóla Íslands og segist hann hafa lært margt á þessum tíma og ekki síst hafi hann kynnst starfsfólki og stúdentum betur auk þess sem tengslin við samfélagið hafi aukist.
„Ég hef mjög mikla trú á ungu fólki á Íslandi. Þetta er upp til hópa afar hæfileikaríkur hópur og ég sá það ekki síst þegar ég bauð mig fram í embætti rektors fyrir fimm árum. Fimm ár eru ekki nógur tími til þess að ná öllu því fram sem ég vil gera sem rektor og það er ein af ástæðunum fyrir því að ég hef ákveðið að sækjast eftir að gegna starfinu í fimm ár til viðbótar.“
Mörg verkefni eru fram undan, að sögn Jóns Atla. Nefnir hann þar á meðal fjórðu iðnbyltinguna sem hefur bæði áhrif á hvernig ungt fólk lærir og starfsvettvanginn sem bíður þess og hefur því mikil áhrif á þróun starfs skólans. Að sögn Jóns Atla hefur verið lögð mikil áhersla á uppbyggingu rannsóknainnviða innan skólans undanfarin ár og það verður gert áfram. „Við erum með framúrskarandi rannsakendur á öllum fræðasviðum og við verðum að tryggja að umgjörð um rannsóknir sé í takt við það sem er í þeim skólum sem við berum okkur saman við.“ Að lokum nefnir hann sérstaklega þverfagleika sem verði að leggja aukna áherslu á, bæði í námi og rannsóknum, til að mæta áskorunum og byggja upp blómlegt samfélag.
„Viðfangsefni samtímans eru svo flókin að þau verða aldrei leyst nema með þverfræðilegri vinnu. Við þurfum að skoða skipulag skólans og brjóta niður múra sem koma í veg fyrir þverfræðilegt samstarf. Það er nauðsynlegt að efla enn frekar að draga saman fólk af mismunandi sviðum til að starfa saman,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
„Hér erum við með sérfræðinga og nemendur á öllum fræðasviðum sem gefur tækifæri til að takast á við helstu áskoranir samtímans. Þetta er eitt af mörgum verkefnum sem eru fram undan í Háskóla Íslands. Framtíð skólans er björt og spennandi.“