Heildarkostnaður við ferjuskipti í Vestmannaeyjum nemur ríflega 5,3 milljörðum króna með rafvæðingu Herjólfs. Þar af er smíðakostnaður rúmlega 4,5 milljarðar króna. Áætlaður kostnaður við ferjuskiptin var 5,6 milljarðar króna. Heildarkostnaður er því lægri en upphaflega var áætlað. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.
Alþingi heimilaði um mitt ár 2016 að bjóða út smíði ferju. Áætlaður kostnaður var 4,8 milljarðar króna á verðlagi 2016. Síðar, eftir að smíðin var hafin, var ákveðið að heimila fulla rafvæðingu sem áætlað var að myndi kosta 800 milljónir króna. Alls var því áætlaður kostnaður upp á 5,6 milljarða króna. Heildarkostnaður við ferjuskiptin nemur ríflega 5,3 milljörðum króna og er því undir því sem upphafalega var sett fram sem heildarkostnaður.
„Þegar nýi Herjólfur kom heim frá Póllandi gaf Vegagerðin upp þá upphæð sem greidd var pólsku skipasmíðastöðinni CRIST. Þá höfðu verið deilur um uppgjör og afhendingu ferjunnar. Sú upphæð sem gefin var upp var 31 milljón evra, eða 4,3 milljarðar króna á genginu þegar skipið var afhent. Þess misskilnings hefur gætt að þessi greiðsla hafi verið heildarkostnaður við komu skipsins en svo er ekki.
Komið hefur fyrir að heildarkostnaðurinn sem nú er 5.302 milljónir króna sé borinn saman við beinan kostnað við smíðina í Póllandi upp á um 4.300 milljónir króna og sú ályktun dregin að smíðin hafi farið fram úr áætlun. Það er ekki reyndin þar sem heildarkostnaður er undir áætlun.
Við þennan beina smíðakostnað bætist, eins og í öllum verkum, ýmis kostnaður. Til dæmis kostnaður við frumhönnun og undirbúning, við eftirlit, umsjón og stjórnun, kostnaður við uppsetningu búnaðar vegna rafvæðingar í höfnum, kostnaður við breytingar á landgöngubúnaði, kostnaður við undirbúning fyrir rekstur ferjunnar og ýmis annar kostnaður.
Ljóst er að tafir á afhendingu ferjunnar voru kostnaðarsamar en að auki þurfti að greiða 220 milljónir króna aukalega til CRIST til að loka málinu og fá ferjuna heim.
Málinu er þó ekki lokið því líkt og í annarri skipasmíði er verkinu ekki að fullu lokið fyrr en ári eftir afhendingu þegar nýr Herjólfur fer í slipp og lokaúttekt. Þá ættu öll mál að vera uppgerð og búið að reyna skipið og lagfæra og bæta það sem kann að hafa komið upp á við siglingar skipsins og telst hluti af smíði ferjunnar,“ segir á vef Vegagerðarinnar.