Starfsfólki sem er með tímabundna ráðningarsamninga hjá Píeta-samtökunum hefur verið tilkynnt að samningar við það verði ekki endurnýjaðir. Föst stöðugildi hjá samtökunum eru tvö og hálft.
Þetta segir Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta. „Það er lauslega búið að segja öllum frá því að fyrirhugaðar séu skipulagsbreytingar og ég get ekki betur séð en að ekki sé gert ráð fyrir núverandi starfsfólki þar á meðal,“ segir Kristín.
Hún er ekki á meðal þeirra sem eru með tímabundinn ráðningarsamning og henni hefur ekki verið sagt upp. Aftur á móti er búið að segja henni að ekki sé gert ráð fyrir henni áfram.
Björk Jónsdóttir, formaður stjórnar Píeta-samtakanna, staðfestir að skipulagsbreytingar séu í gangi. „Ætlunin var að endurskoða starfið eftir tvö ár og málin skýrast á næstu vikum. Það er mikil aðsókn í þjónustuna og við þurfum að ráða fleira fólk í fleiri stöður.“
Píeta-samtökin hafa þegar gert samning um að þau verði í sama húsnæðinu næstu tvö árin. Öll ráðgjöf samtakanna er endurgjaldslaus og veitt af fagfólki. Auk fastra stöðugilda eru verktakarnir margir. „Við erum mjög háð þjóðfélaginu. Við lítum á Píeta sem eign þjóðarinnar,“ segir Björk en félagasamtök hafa meðal annars styrkt þau ásamt Reykjavíkurborg og velferðarráðuneytinu.
Nóvember var þyngsti mánuður Píeta-samtakanna síðan þau voru stofnuð fyrir tveimur árum. Viðtölin í Píeta-húsinu voru 213 talsins og komu 116 einstaklingar þangað til að leita sér hjálpar, þar af 30 sem ekki höfðu komið áður.
„Þetta er þyngsti mánuðurinn okkar frá upphafi þannig að það er mjög mikilvægt að bregðast við svona stöðu,“ segir Björk. Hún bendir á biðlistana sem hafa verið eftir viðtölum. Sú staða sé óásættanleg. Í þessari viku hafa viðtölin verið 72 talsins, sem er það mesta í einni viku til þessa.
Spurð út í ástæðuna fyrir þessum aukna fjölda viðtala segir hún bæði þann tíma ársins vera uppi og að fólk sé orðið meðvitaðra um að opna sig og ræða málin. „Ég held að innkoma Píeta-samtakanna eigi þar hlut að máli. Fólk þekkir samtökin og leitar til okkar, sem er mjög gott.“