Héraðssaksóknari rannsakar fjármál Zuism

Rannsóknin hefur „staðið um nokkurt skeið“ samkvæmt svari Ólafs Þórs …
Rannsóknin hefur „staðið um nokkurt skeið“ samkvæmt svari Ólafs Þórs Haukssonar héraðssaksóknara við fyrirspurn mbl.is. mbl.is/Árni Sæberg

Mál tengt fjárreiðum trúfélagsins Zuism er til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara og hefur rannsóknin „staðið um nokkurt skeið“ samkvæmt svari Ólafs Þórs Haukssonar héraðssaksóknara við fyrirspurn mbl.is. Héraðssaksóknari segir í svari sínu við fyrirspurn mbl.is að ekki verði upplýst hverjir séu með stöðu sakbornings í málinu eins og staða þess sé nú.

Lögmaður ríkisins minntist á þessa rannsókn héraðssaksóknara við aðalmeðferð í máli trúfélagsins á fimmtudag. Zuism rekur málið á hendur ríkinu vegna sóknargjalda, sem ríkið hefur ekki greitt til Zuism út á þessu ári, þar sem ríkið telur vafa leika á því hvort trúfélagið stundi raunverulega starfsemi.

Vísir og RÚV fjölluðu um aðalmeðferðina á fimmtudag og greindu frá því að lögmaður ríkisins hefði sagt að Zuism væri „málamyndafélagsskapur“ til að komast yfir fé skattgreiðenda.

Skráðir félagar í trúfélaginu Zuism voru 1.255 talsins 1. desember og hafði þeim fækkað um 375 frá 1. desember í fyrra, eða um 23%. Félögum í Zuism fækkar hlutfallslega mest af öllum trúfélögum landsins á milli ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert