Allar starfsstöðvar Ríkisskattstjóra voru lokaðar í gær vegna starfsmannafundar. Lokað var hjá Sjúkratryggingum frá kl. 13 á miðvikudaginn vegna starfsdags starfsmanna.
Upphaflega voru starfsdagar bundnir við skóla en færst hefur í vöxt að opinberar stofnanir séu lokaðar á þennan hátt hálfan eða heilan dag einu sinni á ári. Á starfsdögum er eingöngu unnið að ýmsum innri málefnum stofnananna en lítil eða engin þjónusta veitt út á við.
Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár Íslands og formaður Félags forstöðumanna ríkisstofnana, segist telja að heimild til að loka opinberum stofnunum á þennan hátt sé á ákvörðunarvaldi forstöðumanna. Slíkt sé þó ekki gert nema í samráði við viðkomandi ráðuneyti. Leitast sé við að skerða þjónustu sem minnst og auglýsa lokunina með góðum fyrirvara á breiðan hátt, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.