„Varúð! Sleðagata“

Miklabraut vorið 1968. Umferð til austurs á öndverðri akrein við …
Miklabraut vorið 1968. Umferð til austurs á öndverðri akrein við það sem varð með hægri breytingunni. Ljósmynd/Ólafur K. Magnússon

Svo­kallaðar sleðagöt­ur voru stór hluti af lífi barna hér á árum áður er þau renndu sér áhyggju­laus niður um­ferðargöt­ur í snjón­um. Göt­urn­ar voru í flest­um til­fell­um lokaðar bíl­um á meðan krakk­an­ir léku sér til að fyr­ir­byggja hættu. 

Færsla Jens Elías­son­ar um slík­ar göt­ur sem hann hann setti á Face­book-síðuna „Gaml­ar ljós­mynd­ir“ hef­ur fengið góð viðbrögð þeirra sem horfa hlý­lega til þess­ara vetr­arminn­inga.

Þessi mynd sem Ólafur K. Magnússon tók fylgdi Facebook-færslunni frá …
Þessi mynd sem Ólaf­ur K. Magnús­son tók fylgdi Face­book-færsl­unni frá Jens. Ljós­mynd/​Skjá­skot af Face­book

Gömlu ljós­mynd­ina fann hann í bók­inni Ísland í ald­anna rás eft­ir Ill­uga Jök­uls­son. Mynd­ina tók Ólaf­ur K. Magnús­son, sem starfaði lengi sem ljós­mynd­ari á Morg­un­blaðinu, árið 1956 af drengj­um að leik við Stýri­manna­stíg í Reykja­vík við skilti þar sem á stend­ur „Varúð! Sleðagata“.

„Eng­inn að æsa sig“

„Ég var þarna í skól­an­um á Öldu­göt­unni og man al­veg eft­ir því þegar Stýri­manna­stígn­um var lokað. Við vor­um þarna í Vest­ur­bæn­um og ég man al­veg eft­ir þess­um sleðagöt­um,“ seg­ir Jens, sem er fædd­ur 1953. Hann tal­ar sér­stak­lega um árin 1962 til 1964. „Þarna var ég bara 10, 11 ára polli.“

Hann skemmti sér vel á sleðanum og man eft­ir því að for­eldr­ar hafi jafn­vel rennt sér með börn­un­um. Ekk­ert var kvartað yfir uppá­tæk­inu. „Þetta var eng­in um­ferð eins og er núna. Fólkið bjó þarna í göt­un­um og það var eng­inn að æsa sig upp á móti þessu. Það áttu ekki öll heim­ili bíla eins og í dag. Á mínu heim­ili var aldrei neinn bíll.“

Jens seg­ir vanta fleiri brekk­ur fyr­ir krakk­ana til að renna sér í dag, sér­stak­lega í eldri hverf­in í borg­inni. „Þarna voru krakk­arn­ir miklu meira úti að leika sér held­ur en í dag. Núna eru þetta bara tölvurn­ar, þær eru komn­ar í staðinn.“

Börn að leik í snjónum.
Börn að leik í snjón­um. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Renndi sér á sleða niður Miklu­braut

Þór­unn H. Svein­björns­dótt­ir var fimm ára þegar hún flutti á Miklu­braut 82. „Þá vor­um við bara kom­in upp í sveit. Þetta er næst efsta húsið og beint í aust­ur þar voru kart­öflug­arðar og lít­il hús og svo kom bara veg­ur­inn út úr bæn­um og alls kon­ar dýr úti um allt á þessu svæði. Á vet­urna þá var það lít­il um­ferð að ég man eft­ir mér á sleða niður Miklu­braut­ina,“ seg­ir hún og á við þegar hún var átta til níu ára, í kring­um 1945 til 1955.

Hún renndi sér á sparksleða svo­kölluðum, með kjálk­um og sæti enda eng­ar snjóþotur komn­ar fram á sjón­ar­sviðið. Slík­an sleða seg­ir hún þekkt­an Dal­vík. Þar fari eldri kon­ur með hann út í búð og hengi á hann mat­vör­ur.

mbl.is/​Eggert

Eng­inn bíll sjá­an­leg­ur

Þrátt fyr­ir að Mikla­braut­in hafi ekki verið lokuð sleðagata seg­ist Þór­unn hvergi hafa verið smeyk. „Nei, bíl­arn­ir voru svo fáir. Pabbi minn flyt­ur inn bíl 1955 og þá var eng­inn bíll sjá­an­leg­ur frá Miklu­braut 68 og upp í 90,“ rifjar hún upp en á þess­um tíma þurfti leyfi til að eign­ast bíl vegna gjald­eyr­is­hafta. „Það sem var hættu­legt var þegar strák­arn­ir vildu teika bíla.“

Þór­unn man eft­ir því að hafa sokkið með snjó­inn upp í mjaðmir þegar hún fór yfir Klambra­tún á leiðinni í Barna­skóla Aust­ur­bæj­ar. Hún lék sér í still­ans­in­um þegar verið var að byggja Sig­valda­blokk­ina við Skafta­hlíð og bjó til blómakr­ansa með vin­kon­um sín­um þar sem Kringl­an er núna. „Þetta var æv­in­týra­ver­öld,“ seg­ir hún og tal­ar um „al­gjör­lega frá­bæra“ bernsku.

Hún sakn­ar þess að sjá ekki fleiri skíðabrekk­ur í Reykja­vík. Til að mynda seg­ir hún brekk­urn­ar í Selja­hverf­inu og Ártúns­holt­inu gríðarlega vin­sæl­ar.

„Fækka beri sleðagöt­um“

Í grein Morg­un­blaðsins frá 20. des­em­ber 1964, eða fyr­ir tæp­um 55 árum, er greint frá til­lög­um slysa­varn­ar­nefnd­ar Reykja­vík­ur­borg­ar til að sporna við slys­um sem meðal ann­ars snú­ast um að „fækka beri sleðagöt­um svo sem frek­ast er unnt, en gera þess í stað opin svæði, sem fyr­ir eru í borg­inni að vetr­ar­lei­kvæðum fyr­ir börn­in“.

Fram kem­ur að í flest­um ef ekki öll­um til­fell­um liggi sleðagat­an að um­ferðargötu og þá oft­ast að fjöl­far­inni götu. Öllum ætti því að vera ljóst sú hætta sem slík­ir vetr­ar­leik­ir hafi í för með sér.

Skjá­skot af tima­rit.is

Telja sig hindraða með lok­un gatn­anna

„Nefnd­ar­menn gera sér ljóst, að íbú­ar við sleðagöt­ur, svo og aðrir veg­far­end­ur, telja sig oft veru­lega hindraða með lok­un gatn­anna, en svo séu aft­ur aðrir, sem álíti mikla nauðsyn, að börn­in hafi til af­nota lokaðar göt­ur til vetr­ar­leikja, og þar eigi að banna alla um­ferð. Með fyrr­nefnd tvö sjón­ar­mið í huga tel­ur nefnd­in, að fullt til­lit verði að taka til þeirra, er heima eiga við sleðagöt­ur, að rétt­ur íbú­anna þar verði sem minnst skert­ur, jafn­framt því þó, að fyllsta ör­ygg­is verði ávallt tryggt börn­un­um, sem þar eru að leik,“ seg­ir í áliti nefnd­ar­inn­ar.

Lagt er til að stefnt verði mark­visst að því að því að út­búa opin leik­svæði til vetr­ar­leikja barna og fækka sleðagöt­um.

Gátu ekki stöðvað sig 

Til marks um hætt­una sem gat stafað af sleðagöt­um er hér til­vitn­un í frétt úr Þjóðvilj­an­um frá 3. janú­ar 1960:

„Um kl. 2 e.h. í gær varð það slys á gatna­mót­um Bergstaðastræt­is og Bjarg­ar­stígs að tveir dreng­ir á sleða urðu fyr­ir bif­reið og skrámuðust nokkuð. Voru þeir báðir flutt­ir á slysa­varðstof­una, en meiðsli þeirra reynd­ust ekki al­var­leg. Slysið varð með þeim hætti, að dreng­irn­ir komu á sleða niður Bjarg­ar­stíg­inn, sem er sleðagata, en gátu ekki stöðvað sig á gatna­mót­un­um og runnu út á göt­una og fyr­ir bif­reiðina, er bar að í því bili.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert