John Snorri býður almenningi á lokaæfingu fyrir K2

John Snorri Sigurjónsson á toppi K2 árið 2017. Hann ætlar …
John Snorri Sigurjónsson á toppi K2 árið 2017. Hann ætlar að endurtaka leikinn í upphafi næsta árs og verða fyrsti maðurinn í sögunni til þess að klífa K2 að vetrarlagi. Ljósmynd/Kári G. Schram

John Snorri Sigurjónsson fjallamaður stefnir á að verða fyrsti maðurinn í sögunni til þess að klífa fjallið K2 í Pakistan að vetrarlagi og heldur upp í ferð sína í janúar. Hann er nú við æfingar og ætlar að bjóða öllum sem hafa áhuga á að taka þátt í æfingu með sér annað kvöld, en þá ætlar hann að ganga 14 ferðir upp og niður Esjuna.

Morgunblaðið ræddi við John Snorra um fyrirætlanir hans í síðasta mánuði. Þar kom fram að einungis 460 manns hefðu náð að klífa K2 frá því að það var fyrst klifið árið 1954. Í þeirra hópi er John Snorri nú þegar, en enginn hefur klifið fjallið að vetrarlagi fyrr, þótt margir hafi reynt.

Tuttugu og átta klukkutíma æfing

Æfing Johns Snorra hefst kl. 18 á morgun og reiknar hann með því að hún taki tuttugu og átta klukkutíma. Hann býður vinum og göngufólki að slást í för með sér einn og einn legg af ferðinni, en John Snorri leggur af stað upp á Esjuna með tveggja klukkustunda millibili þar til æfingunni lýkur kl. 22 annað kvöld.

Leiðangur Johns Snorra núna í janúar og atlagan að þessu heimsmeti er ekki ódýrt verkefni og kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir 22 til 24 milljónum. Í tilkynningu um fjöldaæfinguna, sem John Snorri kallar lokaæfinguna fyrir K2, segir að hugmyndin með æfingunni sé að vekja athygli á leiðangrinum og kalla eftir aðstoð við fjármögnunina. 

„Þeir sem hafa hug á að taka einn eða fleiri leggi upp með John eru sannarlega velkomnir en þurfa að hafa í huga að til að halda tíma og ljúka verkefninu á réttum tíma þarf John að fara á sínum hraða sem þó miðast við það að hann þarf að halda út 14 ferðir þannig að hann er ekki að fara á feiknahraða,“ segir í tilkynningu.

Hægt er að styrkja ferð Johns Snorra með því að leggja inn á reikning fjallamannsins.

Reikningur: 549-26-52
Kennitala: 2006735499

Dagskrá æfingarinnar er eins og hér segir:  

Mánudagskvöldið 9.des 

18:00 fyrsta ferð, upp að Steini 

20:00 önnur ferð, upp að Steini 

22:00 þriðja ferð, upp að Steini 

00:00 fjórða ferð, upp að Steini 

02:00 fimmta ferð, upp að Steini 

04:00 sjötta ferð, upp að Steini 

06:00 sjöunda ferð, upp að Steini 

08:00 áttunda ferð, upp að Steini

10:00 níunda ferð, upp að Steini 

12:00 tíunda ferð, upp að Þverfellshorni 

14:00 ellefta ferð, upp að Steini 

16:00 tólftu ferð, upp að Steini 

18:00 þrettán ferð, upp að Steini 

20:00 fjórtánda ferð, upp að Steini 

Alls eru þetta 14 ferðir, um 100 kílómetrar og sambærileg hæð og K2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert