Erfitt að segja til um orsakir slyssins

Flugvél af gerðinni Tecnam P2002JF, eins og sú sem fórst …
Flugvél af gerðinni Tecnam P2002JF, eins og sú sem fórst suður af Hafnarfirði.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa segir erfitt að segja til um ástæður þess að eins hreyfils kennsluflugvél af gerðinni Tecnam P2002JF spann til jarðar í Hafnarfjarðarhrauni í nóvember árið 2015 með þeim afleiðingum að báðir flugmennirnir létust. Þeir voru báðir flugkennarar við Flugskóla Íslands. Ónógar upplýsingar liggja fyrir til þess að nefndin geti fullyrt um ástæður þess að vélin hrapaði.

Talið er líklegast að flugmennirnir hafi misst stjórn á vélinni við ofrisæfingu og hún farið í spuna, sem ekkert fékkst ráðið við. Fram kemur í skýrslunni að flugmenn sem rannsóknarnefndin ræddi við sögðu að við ofris hefði vélin haft tilhneigingu til þess að snúast skyndilega yfir á annan vænginn.

Slysið átti sér stað 12. nóvember 2015.
Slysið átti sér stað 12. nóvember 2015. mbl.is

Engin vitni voru að slysinu og enginn hljóðupptökubúnaður var um borð. Lokaskýrsla um flugslysið var gefin út í gær og þar eru nokkrar ástæður sem gætu hafa átt þátt í slysinu nefndar. Þar segir meðal annars að síðasta staða vélarinnar á ratsjá hafi sýnt að hún hefði stefnt í átt að sólu í um það bil 1.900—2.200 feta hæð.

Sólin er sögð hafa getað truflað sjón flugmannanna, sem gæti hafa verið samverkandi þáttur í orsökum slyssins, að mati rannsóknarnefndarinnar. Einnig gat nefndin ekki útilokað að þrátt fyrir að bjart hafi verið í veðri og að mestu skýjalaust á svæðinu, hafi ísing getað haft áhrif á flug flugvélarinnar á mikilvægu augnabliki.

Flugvélin var ný og hafði einungis verið flogið í 16 klukkustundir þegar slysið átti sér stað og voru flugmennirnir líklegast að æfa ofris og beygjur er slysið varð, samkvæmt skýrslunni. Fram hefur komið að Tecnam-vélar af þessari tilteknu gerð hafi spunnið til jarðar í tveimur svipuðum atvikum erlendis, í mars og apríl 2016.

Flughæð vélarinnar var lægri en lágmarksæfingahæð flugskólans, sem er 3.000 fet, en tekið er fram að vegna aðstæðna á þessu tiltekna svæði yfir Hafnarfjarðarhrauni hafi verið algengt að vélar æfðu undir 3.000 fetum. Rannsóknarnefndin beinir því til flugskóla sem notast við þessa tegund flugvéla að æfingar, sem geti leitt til þess að vélar fari í spuna, verði ekki framkvæmdar undir 5.000 feta hæð og beinir því til Samgöngustofu að skilgreina slíkt æfingasvæði í grennd við höfuðborgarsvæðið.

Rannsókn málsins hefur tekið fjögur ár og hefur nefndin verið í miklu samstarfi við erlenda aðila um að komast að því hvað orsakaði slysið. Um það er þó erfitt að segja, sem áður segir. Ekki reyndist mögulegt fyrir rannsóknarnefndina að komast að því hvor flugmannanna var með stjórn á vélinni er slysið átti sér stað.

Skýrsla nefndarinnar í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert