Hannaði Kennsluappið til að bæta orðaforða barna

Björn Þorvarðarson hefur verið að hanna menntunartengd forrit síðan 2014.
Björn Þorvarðarson hefur verið að hanna menntunartengd forrit síðan 2014. Ljósmynd/Aðsend

„Ég bjó fyrst til leik sem kallast Orðaleikur og er stafarugl. Svo komst ég að því að það væri kannski betra að vera með leik fyrir þá sem eru enn yngri vegna þess að stafaruglið var dálítið erfitt fyrir yngstu börnin,“ segir Björn Þorvarðarson tölvufræðingur í samtali við mbl.is.

Björn hefur nýlega lokið við gerð hugbúnaðar fyrir snjalltæki sem er meðal annars hugsað til að bæta orðaforða íslenskra og erlendra barna. Appið heitir Kennsluappið og inniheldur marga kennsluleiki og þrautir sem eru miskrefjandi.

Leikirnir eru miskrefjandi og ættu að nýtast bæði íslenskum og …
Leikirnir eru miskrefjandi og ættu að nýtast bæði íslenskum og erlendum börnum. Ljósmynd/Aðsend

Þörfin er sannarlega til staðar enda kom fram í máli Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra í Kastljósi í síðustu viku að orðaforði hefði verið að minnka hjá íslenskum nemendum og að íslensk stjórnvöld hygðust fara í aðgerðir til að auka orðaforðann í kjölfar niðurstaðna PISA-könnunarinnar.

Kennsluappið er þó ekki einungis ætlað íslenskum börnum heldur mun það einnig nýtast ört stækkandi hópi barna og fullorðinna á Íslandi sem hafa annað móðurmál en íslensku.

Mun bæta við leikjum í framhaldinu

„Ég byrjaði að búa til öpp árið 2014 og þá voru þetta litlir leikir, einn leikur í hverju appi. En síðan ákvað ég að það væri betra að vera með eitt app sem inniheldur marga mismunandi leiki,“ útskýrir Björn og bætir við.

„Það tók dálítinn tíma en ég er líka að hugsa þetta til lengri tíma. Núna er uppsetningin komin og þá get ég bætt við fleiri leikjum inn í þetta app í framhaldinu. Þetta var smíðað með það í huga.“

Hér þarf að skrifa orðið með lyklaborði snjalltækisins. Það getur …
Hér þarf að skrifa orðið með lyklaborði snjalltækisins. Það getur verið krefjandi enda eru orðin 600 talsins og stafsetning þeirra miserfið. Ljósmynd/Aðsend

Eins og stendur eru þrír leikir í Kennsluappinu þar sem orðaforði er æfður með mismunandi hætti. Hver leikur inniheldur yfir 600 orð ásamt hljóði með framburði og unnið er að því að bæta við fleiri orðum. Þá segist Björn þegar vera kominn með fleiri leiki í vinnslu sem hann muni bæta inn í Kennsluappið í framtíðinni.

Yngstu börnin geta líka tekið þátt

Eins og áður segir eru leikirnir miskrefjandi. Einn er þannig að notandi sér mynd á skjánum og þarf að skrifa orðið með lyklaborði snjalltækisins. Auðveldasti leikurinn er þannig að mynd birtist á skjánum með þremur orðum eða valmöguleikum – sem hægt er að ýta á til að heyra framburð þeirra – og velja síðan rétta svarið.

„Þetta þýðir að þú þarft ekki einu sinni að kunna að lesa til að spila leikinn því þú heyrir orðin. Lítil börn sem skilja orð en kunna ekki að lesa geta því spilað þennan leik og læra þá stafina í leiðinni,“ segir Björn.

Auðveldasti leikurinn er hannaður fyrir yngstu börnin og þau sem …
Auðveldasti leikurinn er hannaður fyrir yngstu börnin og þau sem þekkja ekki stafina eða kunna ekki að lesa. Ljósmynd/Aðsend

Verður ekki ríkur á þessu

Kennsluappið var búið til án styrkja og er ekki hugsað í hagnaðarskyni. Ókeypis er að sækja appið en til að fá aðgang að öllum leikjum og þrautum þarf að greiða lítið gjald.

„Þó að maður rukki þá skilar það ekki neinum sérstökum launum og maður verður ekki ríkur á því. Samt vill maður heldur ekki alveg gefa vinnuna sína. Maður vill að fólk kunni að meta hana og ef það gerir það þá á ekki að vera vandamál að greiða einhverja smáupphæð,“ bætir hann við að lokum.

Hér er hægt að sækja Kennsluappið fyrir iOS-stýrikerfið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert