„Þetta er lífshættulegt og þetta verður gríðarlega erfitt, ég get alveg lofað þér því. En ég er búinn að fara þetta áður, er að fara sömu leið og ég veit að ég get þetta með þessum hópi sem ég er með. Ég er búinn að setja saman færustu menn í fjallaklifri og með þennan hóp er ég viss um að við munum geta toppað fjallið,“ segir John Snorri Sigurjónsson fjallamaður, sem heldur brátt til Pakistans þar sem hann hyggst verða fyrsti maðurinn til þess að ná tindi K2 að vetrarlagi.
„Ég er bara að bíða eftir því að fá áritunina inn í Pakistan, er orðinn smá stressaður, en það hlýtur að koma, eins og síðast. Ég fer út í byrjun janúar og hitti þá félaga mína í Islamabad,“ segir John Snorri. Hann ætlaði að halda opna æfingu á Esjunni í kvöld og bjóða fólki að ganga með sér í rúman sólarhring, en ákvað að fresta æfingunni um viku vegna veðurs, eins og greint hefur verið frá í dag.
Hann segir að hann sé að fara á fjallið með algjörum eðalklifrurum, Mingma G frá Nepal og Gau Li frá Kína, auk þriggja sjerpa og eins heimamanns frá Pakistan. Svo gæti líka farið að einn klifrari til viðbótar bættist í hópinn, en sá er þaulvanur fjallamaður og læknir og mun vera tilbúinn að leggja fjárhagslega af mörkum til ferðarinnar, sem skiptir máli enda kostnaður við leiðangurinn áætlaður yfir 20 milljónir króna. Ef læknirinn kemur með stækkar leiðangurinn líklega upp í alls níu manns, þar sem þá verður þörf fyrir fjórða sjerpann. En eins og staðan er í dag er þetta sjö manna teymi sem ætlar sér að gera það sem engir menn hafa áður gert, að ná toppi K2 að vetrarlagi.
„Tímabilið er frá 1. janúar og til 22. mars, það flokkast sem vetrartímabil og á þessu tímabili þurfum við að toppa K2, annars telst það ekki vetrartími. Við förum með sex kílómetra af línum með okkur og reiknum með að vera búnir að koma upp búðum eitt, tvö og vonandi þrjú og festa línur í fjallið í kringum 20. febrúar. Þá erum við tilbúnir að takast á við toppinn, gera lokaatlöguna þegar færi gefst,“ segir John Snorri.
Það er auðheyrt að það skiptir John Snorra miklu máli að ná þessu afreki. „Mig langar til þess að það verði íslenski fáninn sem verður fyrsti fáninn sem er rekinn í toppinn á K2 að vetri til. Það skiptir rosalega miklu máli, við erum þessi mikla útivistarþjóð og mér finnst að við þurfum að eiga eitt svona alvöruheimsmet. K2 er eina 8.000 metra fjallið sem aldrei hefur verið toppað að vetri til. Það er enn ósigrað,“ segir fjallamaðurinn.
Fjórir leiðangrar lagt af stað á topp K2 að vetrarlagi. Veturinn 1987-1988 fóru 24 pólskir, kanadískir og breskir fjallamenn af stað og komust fjórir þeirra hæst í þriðju búðir fjallsins, sem eru í 7.300 metra hæð. Þaðan urðu þeir frá að hverfa vegna veðuraðstæðna og kalsára.
Veturinn 2002-2003 héldu fjórtán fjallamenn, flestir frá Póllandi, af stað á tindinn. Þrír þeirra komust í fjórðu búðir, í 7.650 metra hæð. Tveir þeirra reyndu að fara stað á toppinn, en það gekk ekki þar sem tjald þeirra eyðilagðist í fjórðu búðum og annar þeirra þjáðist af bjúg.
Veturinn 2011-2012 reyndu níu Rússar að klífa fjallið. Þrír komust upp í 7.200 metra hæð, en þaðan urðu þeir frá að hverfa sökum veðurs, en vindhraðinn var kominn upp í fellibylsstig. Þá var einn þeirra illa kalinn á báðum höndum. Eftir að þeir komust niður í grunnbúðir fjallsins lést sá maður, Vitaly Gorelik, úr lungnabólgu og hjartaáfalli, en ómögulegt reyndist að senda þyrlu eftir honum vegna veðurhamsins.
Veturinn 2017-2018 reyndu svo þrettán fjallamenn í pólskum leiðangri að komast á toppinn. Þeir komust í 7.400 metra hæð, en einn þeirra, sem gerði atlögu að toppnum einsamall, segir að hann hafi líklega komist í 7.600 metra hæð.
John Snorri hefur kynnt sér alla þessa leiðangra og segist vel undir það búinn að takast á við svipaðar þrekraunir og þessir fjallagarpar hafa mætt. Frostið og vindurinn verða helstu áskoranirnar.
„Pólski leiðangurinn árið 1987 var að eiga við -73°C frost og vindurinn var gríðarlegur. Ég er að láta sauma á mig svefnpoka sem þolir -70°C frost. Ef frostið verður of mikið á ég líka möguleika á að sofa í heilgallanum mínum,“ segir John Snorri.
Aðstæður skipta líka máli og segist John Snorri vonast til þess að lítill snjór verði í fjallinu eftir áramót. „Það væri best ef fjallið yrði bara einn ís, það yrði ísklifur alla leið. Það væru kjöraðstæður fyrir okkur. Síðast þegar ég fór árið 2017 vorum við að berjast við rosalega mikinn snjó, djúpan snjó. Við vorum þá 17-18 klukkutíma að ná toppnum frá búðum fjögur, sem er alveg gríðarlega langur tími.“