Esjuæfingu Johns Snorra frestað vegna veðurs

John Snorri Sigurjónsson fjallamaður ætlar að verða fyrsti maðurinn til …
John Snorri Sigurjónsson fjallamaður ætlar að verða fyrsti maðurinn til þess að klífa K2, næsthæsta tind heims, að vetrarlagi. Ljósmynd/Aðsend

John Snorri Sigurjónsson fjallamaður hefur frestað opinni tuttugu og átta klukkustunda æfingu sinni á Esjunni, sem átti að hefjast í kvöld, vegna stormviðvörunar.

„Þetta væru í raun kjöraðstæður fyrir mig að æfa mig í en það er ekki hægt að stefna fólki í að labba með mér við þessar aðstæður,“ segir John Snorri, spurður hvort það skyti ekki skökku við að fresta æfingu fyrir K2-förina vegna veðurs.

Fjallamaðurinn er sem kunnugt er að undirbúa sig fyrir ferð til Pakistan að klífa fjallið K2 að vetrarlagi, fyrstur manna.

Opnu æfingunni verður frestað um eina viku og hefst hún því mánudaginn 16. desember kl. 18. Þá ætlar John Snorri að bjóða vinum og göngufólki að slást í för með sér upp og niður Esjuna, en alls ætlar fjallamaðurinn að fara fjórtán ferðir á fjallið á tuttugu og átta klukkutímum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert