Forseti ávítaði þingmenn vegna fjarveru

„Forseti minnir á skyldu þingmanna að sækja þingfundi og sérstaklega …
„Forseti minnir á skyldu þingmanna að sækja þingfundi og sérstaklega að taka þátt í atkvæðagreiðslum nema sérstök forföll komi veg fyrir að þeir sinni þeirri skyldu sinni.“ mbl.is/​Hari

Steingrímur J. Sigfússon ávítti þingmenn á Alþingi í dag vegna fjarveru þeirra við atkvæðagreiðslu sem hringt var til nú á fjórða tímanum. 

Til stóð að þingmenn greiddu atkvæði um að bæta þremur þingmálum á dagskrá þingfundar auk þess að greiða atkvæði um hvort þingfundur dagsins mætti standa lengur en þingsköp gerðu ráð fyrir. 

Samkvæmt skráningu eru 38 þingmenn í húsi en eitthvað virtist standa á þeim að mæta til atkvæðagreiðslunnar.

„Forseti minnir á skyldu þingmanna að sækja þingfundi og sérstaklega að taka þátt í atkvæðagreiðslum nema sérstök forföll komi í veg fyrir að þeir sinni þeirri skyldu sinni.“

Brá forseti á það ráð að taka fyrir 4. dagskrármál þingfundarins og reyna aftur við atkvæðagreiðslu síðar. Þingmálin sem greiða á atkvæði um eru staða, stjórn, og starfshættir þjóðkirkjunnar, skráning raunverulegra eigenda og fjölmiðlar.

„Forseta finnst þetta vond uppákoma, að þingmenn sem eru hér á staðnum mæti ekki til boðaðrar atkvæðagreiðslu, sérstaklega þegar þeir biðja um hana sjálfir,“ sagði Steingrímur og vísaði til þess að óskað hafði verið eftir atkvæðagreiðslu um lengri þingfund.

Uppfært kl. 17:18: Samkvæmt upplýsingum mbl.is voru það þingmenn í stjórnarandstöðu, sem höfðu óskað eftir atkvæðagreiðslu um lengd þingfundar, sem voru fjarverandi þegar boðað var til atkvæðagreiðslunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert