Fulltrúar Veðurstofunnar og Almannavarna funda núna þar sem farið verður yfir stöðu mála varðandi líklegt ofsaveður á morgun og miðvikudag á landinu. Verður meðal annars skoðað hvort grípa eigi til frekari ráðstafana en þegar hafa verið ákveðnar, en Vegagerðin hefur meðal annars tilkynnt víðtækar lokanir vega.
Fyrr í dag var lýst yfir appelsínugulri viðvörun, en það þýðir að það séu miðlungs eða miklar líkur á veðri sem geti valdið miklum samfélagslegum áhrifum og tjóni eða slysum og ógnað mögulega lífi og limum ef aðgát er ekki höfð.
Elín Björg Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að á viðvörunarskalanum sé eitt stig ofar, en það er rauð viðvörun. Það er hins vegar ekki aðeins veðurfræðinga að setja fram slíka viðvörun, heldur komi almannavarnir að þeirri ákvörðun og þurfi að lýsa yfir viðbragðsástandi.