Sagnfræðilegar heimildir benda til þess að sjálfstæðishetjan Jón Sigurðsson hafi verið undir áhrifum þýskra ríkisvísinda fremur en frjálslyndisstefnu og þannig verið fylgjandi auknum ríkisafskiptum.
Þetta segir Sveinn Máni Jóhannesson, nýdoktor í sagnfræði, en hann færir rök fyrir þessu í grein sinni Farsældarríki Jóns Sigurðssonar, sem birtist í nýjasta hefti tímaritsins Sögu. Ríkisvísindi eru að sögn Sveins akademískt fag sem Jón tileinkaði sér í Kaupmannahafnarháskóla og snerist um það hvernig stýra ætti ríkjum með skilvirkum hætti með sérstakri áherslu á að hið opinbera bæri ábyrgð á að efla hamingju, velferð og farsæld þegnanna.
Telur Sveinn að skortur á rannsóknum á stjórnmálahugmyndum frá samtíma Jóns og erlendu samhengi þeirra vera ástæðuna fyrir því að lítið er vitað um hugmyndafræði hans. Hann segir jafnframt að mikil tilhneiging sé til þess í íslensku fræðasamfélagi að flokka flestar hugmyndir undir frjálslyndisstefnu og þjóðernishyggju. Telur hann að hugmyndafræði Jóns Sigurðssonar hafi verið flóknari en svo, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.