Lögreglan á Vesturlandi bauð á dögunum öllum starfsmönnum og mökum þeirra til jólafagnaðar á Grand hóteli í Reykjavík. Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Vesturlandi, sagði aðspurður að alls hefði 64 verið boðið í veisluna.
Kostnaðurinn hefði numið alls 1.400 þúsund krónum. Um væri að ræða samfagnað sem embættið efndi til annað hvert ár.
Spurður út í kostnaðinn sagði Úlfar að gisting hefði verið innifalin. Embættið greiddi allan kostnað vegna jólahlaðborðs og gistingar starfsmanna og maka þeirra.
Samkvæmt vefsíðu Íslandshótela, sem reka Grand hótel, kostar jólahlaðboðið 11.900 á mann. Samkvæmt því hefði maturinn kostað lögregluna um 762 þúsund krónur. Úlfar Finnbjörnsson, yfirmatreiðslumeistari á Grand hóteli, reiðir fram yfir 50 jólarétti á hlaðborðinu.