Veðurstofa Íslands hefur í samráði við almannavarnir hækkað viðvörunarstig á Norðurlandi eystra og er það nú rautt. Viðvörunin er í gildi frá klukkan 16 og til hádegis á morgun. Þá gengur rauð viðvörun einnig í gildi á Norðurlandi vestra og á Ströndum klukkan 16, klukkustund fyrr en ráðgert var. Sú stendur þó aðeins til klukkan eitt í nótt.
„Veðrið er algjörlega að ganga eftir,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is að loknum samráðsfundi á Veðurstofunni.
„Það eru komnir 33 m/s á Blönduósi, Straumnesvegi og Siglufjarðarvegi. Þetta er allt að ganga eftir og við ætlum að halda viðvörunum nokkuð óbreyttum en þær verða mögulega hækkaðar næstu tímana.“
Appelsínugular viðvaranir eru í gildi annars staðar á landinu.
Fréttin hefur verið uppfærð.