Tækniþróunarsjóður veitti samtals 730 styrki á árunum 2009 til 2018 fyrir samtals tæpa 13,5 milljarða króna. Endurgreiðslur kostnaðar vegna rannsóknar og þróunar námu rúmum 16 milljörðum króna á þessu tímabili.
Þetta kemur fram í svari ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur um stuðning við nýsköpun.
Tækniþróunarsjóður er stærstur af þeim samkeppnis- og styrktarsjóðum sem eru til staðar í opinberu stuðningsumhverfi nýsköpunar. Flestar umsóknir í sjóðinn voru af höfuðborgarsvæðinu og bárust þangað um 89% af heildargreiðslum. Árangurshlutfall eftir landshlutum varðandi þá sem sækja um og fá styrk er breytilegt milli landshluta og þar skora Vestfirðir hæst með 39% hlutfall.
Endurgreiðslur kostnaðar hafa aukist töluvert síðustu ár. Flestar umsóknir um endurgreiðslur komu af höfuðborgarsvæðinu og runnu alls um 14,7 milljarðar þangað á umræddu tímabili. Endurgreiðslurnar eru næsthæstar á Vesturlandi þar sem þær námu um 455 milljónum króna. Í öllum landshlutum gildir að yfir 80% þeirra sem sækja um endurgreiðslur hafa erindi sem erfiði, að því er segir í svarinu.