Vegna rafmagnsleysis og fleiri samverkandi þátta hefur fjarskiptasamband rofnað víða um land, frá Vestfjörðum, um allt Norðurland og á Austurlandi. Bæði hafa verið truflanir á almennum fjarskiptakerfum og einnig á Tetra-kerfinu, því stafræna fjarskiptakerfi sem björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar treysta á þegar mikið liggur við. RÚV greindi fyrst frá.
Þorleifur Jónasson, fjarskiptafræðingur og forstöðumaður tæknideildar hjá Póst- og fjarskiptastofnun, segir í samtali við mbl.is að staðan hafi verið slæm og sé enn slæm, margar sendistöðvar séu úti, aðallega vegna rafmagnsleysis.
Blaðamaður spyr hvort búist hafi verið við því að fjarskipti myndu raskast jafn mikið og raun ber vitni.
„Það er náttúrulega alltaf erfitt að segja til um hverju maður á von á þegar veður eru váleit og þetta er auðvitað mjög mikið og slæmt veður sem við erum að ganga í gegnum, en ég hef ekki séð þetta umfang áður. Þetta er ekki bara hvellur, þetta er veður sem er búið að standa yfir frá því í gærmorgun og stendur enn og það spilar töluverða rullu líka, hvað þetta er langvinnt. Það eru takmörk á því hversu lengi varaaflið helst uppi,“ segir Þorleifur.
Hann segist ekki hafa upplýsingar um það hversu margir notendur hafa orðið fyrir áhrifum fjarskiptatruflana síðan veðrið gekk inn á landið í gær.
„En þetta hefur verið svolítið kaflaskipt, sem betur fer hefur rafmagn verið skammtað og verið hægt að hlaða upp rafgeymana, svo það eru allmargir staðir sem eru í gangi en ganga fyrir varaafli. En það eru einhverjir staðir úti og þá er kannski ekki fjarskiptasamband og kannski heldur ekki Tetra-samband,“ segir Þorleifur.
Hann bætir við að þó að Tetra-samband falli niður þýði það ekki að Tetra-sendistaðir séu ekki í gangi, enda séu þeir með öflugar varavélar knúnar díseli.
„En svo samböndin við sendistaðina, eins og ljósleiðaratengingar og örbylgjutengingar, þær kannski detta út og þá er staðurinn náttúrulega bara úti. Þetta eru margir samverkandi þættir sem hafa áhrif á þetta,“ segir Þorleifur, sem á von á því að þegar veðrinu slotar detti sendistaðirnir aftur inn, einn af öðrum.
„Þetta eru engar verulegar skemmdir sem hafa orðið, þetta eru ekki truflanir af því að því taginu heldur er þetta fyrst og fremst vegna rafmagnsleysis.“
Þið fylgist væntanlega vel með stöðunni áfram?
„Við gerum það og við eigum svo eftir að funda í kjölfarið á þessu þegar veðrinu slotar og draga fram, hvað lærðum við og hvað getum við gert til þess að undirbúa okkur betur,“ segir Þorleifur.