Jóhann Ólafsson
„Það byrjaði að gusta hérna upp úr sex í morgun og ég heyri ekki annað en að vindurinn sé enn að aukast,“ segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps, í samtali við mbl.is. Vindhraði í Hamarsfirði rétt við Djúpavog fer í 46 m/s í hviðum en spár gera ráð fyrir því að aftakaveðrið gangi niður á Austurlandi upp úr hádegi.
Víðtækar vegalokanir eru á Austurlandi; þjóðvegur suður af Djúpavogi lokaður, Fjarðarheiði er lokuð sem og Fagridalur, Möðrudalsöræfi, Vopnafjarðarleið og Vatnsskarð. Þrátt fyrir að fólk geti komist norður frá Djúpavogi segir Gauti að það sé mun skynsamlegra að halda kyrru fyrir næstu klukkustundirnar.
Skólahald liggur ekki niðri á Djúpavogi þrátt fyrir vindstrenginn en Gauti segir að foreldrar hafi ráðið því sjálfir hvort börnin þeirra yrðu send í skólann í morgun.
„Skólinn sendi út tilkynningu um að hann væri opinn. Ég er búinn að heimsækja bæði grunn- og leikskóla í morgun og það voru einhver börn sem voru heima en það var töluvert af börnum mætt,“ segir Gauti.
Hann bætir því við að veður ætti að verða skaplegt þegar skóladeginum lýkur og börnin halda heim á leið.
„Starfsmenn áhaldahússins undirbjuggu sig eins og kostur var og starfsfólk við höfnina. Síðan búum við svo vel að hafa gott fólk í björgunarsveitinni sem hefur verið uppi á veginum sem er lokaður,“ segir Gauti sem bætir við að íbúar í grennd við Hamarsfjörð kannist við það þegar það blási:
„Við erum nú ýmsu vön hérna við Hamarsfjörðinn.“