Aðgerðastjórn almannavarnanefndar Skagafjarðar bendir íbúum svæðisins á að allir vegir á svæðinu eru enn lokaðir vegna ófærðar og slæms veðurs. Þá séu rafmagnslínur víða signar niður undir jörð vegna ísingar og dreifing raforku um svæðið ótrygg. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Almannavarnanefndin beinir því til allra íbúa á svæðinu að enn sé í gildi hættuástand almannavarna og er fólk beðið að gæta varúðar og halda sig innandyra meðan ástandið varir og ekki vera á ferð utandyra nema nauðsyn krefji, en gleyma þó ekki að huga að náunganum.
Vegna stöðu raforkudreifingar, en raforka hefur verið skömmtuð í Skagafirði í dag, er því einnig beint til almennings að fara sparlega með rafmagn.