Jóhann Ólafsson
„Það var hvassast á milli tíu og tólf. Svo fljótlega í hádeginu var eins og það hefði verið slökkt á einhverjum rofa en það datt næstum allt í dúnalogn,“ segir Kristján Ingimarsson, íbúi á Djúpavogi, við mbl.is.
Þrátt fyrir að „hvellurinn“ sé afstaðinn á Djúpavogi er þjóðveginum í suður enn lokað en það er vegna þess að veðurviðvaranir eru enn í gildi á Suðausturlandi á svæðinu undir Vatnajökli.
„Báðir björgunarsveitarbílarnir frá okkur eru komnir í hús þannig að vegurinn er ekki lengur vaktaður,“ segir Kristján. Hann stóð sjálfur vaktina í morgun og segir að enginn hafi reynt að lauma sér á ófærar slóðir.
Kristján og félagar vöktuðu veðrið í Hamarsfirði fyrir hádegi en tókst ekki að koma í veg fyrir að vindmælirinn færi sína leið í sterkustu hviðunum. Hann segir að þeir hafi fylgst með mælingum á síðum Vegagerðarinnar og þar hafi mælir allt í einu sýnt logn:
„Þá grunaði okkur að mælirinn væri farinn. Við tókum rúnt þarna inn eftir og það passaði, hann var farinn. Ég svipaðist um eftir honum en hann var hvergi sjáanlegur. Hann hefur farið í sjóinn,“ segir Kristján en þetta er ekki í fyrsta skipti sem vindhraðinn verður of mikill fyrir mælinn í Hamarsfirði.
„Síðasta hviða sem mældist á honum áðan fór yfir 52 m/s. Eftir það hefur eitthvað gerst og svo hvarf hann.“