Helgi Bjarnason
Þótt veðrið hafi heldur verið að ganga niður á höfuðborgarsvæðinu seint í gærkvöldi og á vesturhluta landsins heldur lægðin áfram að valda landsmönnum erfiðleikum. Spáð er leiðindaveðri á Austurlandi í dag.
Sérstaklega er varað við hvössum vindi og vindhviðum á Suðausturlandi. Undir Vatnajökli gæti vindhraðinn orðið 30 metrar á sekúndu og hviðurnar farið yfir 50 metra.
Aðgerðastjórnir á Austurlandi eru í viðbragðsstöðu vegna óveðursins. Fara átti yfir málin aftur í nótt eða snemma morguns. Skólahald fellur niður og flestum vegum verður lokað. Íbúar eru hvattir til að fylgjast með veðurspám og vera ekki á ferðinni nema af brýnni nauðsyn.
Veðrið í gær var verst á Norðurlandi vestra. Björgunarsveitir, lögregla og aðrir viðbragðsaðilar komu fólki og húseigendum til aðstoðar. 640 björgunarsveitarmenn voru á vaktinni og um klukkan 21.30 í gærkvöldi höfðu þeir sinnt liðlega 430 verkefnum. Talsvert eignatjón varð en ekki er vitað um slys á fólki.
Rafmagn fór af víða á Norðurlandi og Vestfjörðum en varaafl er keyrt á flestum stærri stöðum. Mesta tjónið varð á Kópaskerslínu þar sem á annan tug straura brotnaði. Tekur marga daga að gera við línuna.